Erlent

Um­mæli for­seta COP28 um jarðefnaeldsneyti vekja á­hyggjur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ahmed Al Jaber á setningarathöfn COP28.
Ahmed Al Jaber á setningarathöfn COP28. EPA-EFE/ALI HAIDER

Al Jaber, forseti loftlagsráðstefnunnar COP28, segir vísindin ekki styðja fullyrðingar um það að ríki heims þurfi að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti til þess að koma í veg fyrir hlýnun jarðar um 1,5 gráður. Hann hefur verið harðlega gagnrýndur af vísindamönnum sem segja fullyrðingar hans beinlínis rangar.

Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að forsetinn hafi látið ummælin falla á fjarfundi sem haldinn var í aðdraganda ráðstefnunnar þann 21. nóvember síðastliðinn.  Al Jaber er ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabíska furstadæmanna, sem halda ráðstefnuna.

Á fundinum lýsti Mary Robinson, fyrrverandi erindreki Sameinuðu þjóðanna í loftlagsmálum, yfir áhyggjum af því að ríki heims hefðu ekki komið sér saman um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Skoraði hún á Al Jaber að beita sér fyrir því.

„Ég samþykkti að mæta til þessa funda til að eiga í uppbyggilegum samræðum. Ég mun ekki taka þátt í umræðum sem byggja á hræðsluáróðri,“ svaraði Al Jaber þá. „Það eru engin vísindi til staðar sem benda til þess að það að hætta notkun jarðefnaeldsneytis sé það sem mun stöðva 1,5 gráðu hækkun.“

Þá kom til frekari orðaskipta á milli þeirra en Al Jaber skipti ekki um skoðun. Hann sagði að ekki væri hægt að hætta notkun jarðefnaeldsneytis en tryggja á sama tíma sjálfbæra þróun, nema fólk hafi í hyggju að gera menn aftur að hellisbúum, eins og hann orðaði það.

Guardian hefur eftir vísindamönnum að ummæli Al Jaber valdi þeim miklu hugarangri. Þau séu beinlínis röng en Guardian ræðir meðal annars við Friederike Otto, prófessor við Imperial College í London og Sir David King, ráðgjafa breskra stjórnvalda í loftlagsmálum.

Sá segir það koma sér á óvart að forseti COP28 tali með slíkum hætti. Það sé alveg ljóst að notkun jarðefnaeldsneytis hafi bein áhrif á hnattræna hlýnun. Vísindin hafi legið fyrir í áratugi. Þá sagði Antonio Guiterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í setningarræðu COP28 að vísindin væru á hreinu, mannkynið yrði að hætta notkun jarðefnaeldsneytis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×