Erlent

Shakira semur um skattalagabrotin

Jón Þór Stefánsson skrifar
Shakria fór ásamt lögfræðiteymi sínu í dómstól í Barselóna í dag þar sem réttarhöld áttu að hefjast.
Shakria fór ásamt lögfræðiteymi sínu í dómstól í Barselóna í dag þar sem réttarhöld áttu að hefjast. EPA

Kólumbíska poppstjarnan Shakira hefur gert dómssátt við saksóknara um meint skattalagabrot hennar á Spáni, en réttarhöld í málinu voru í þann mund að hefjast.

Umræddar sakir sem gefnar voru Shakiru á hendur vörðuðu fjórtán og hálfa milljón evra, sem jafngildir rúmlega tveimur milljörðum króna. Saksóknari á Spáni hafði krafist þess að söngkonan heimsfræga myndi sæta átta ára fangelsisvist, og greiða tæplega 24 milljón evra sekt yrði hún sakfelld.

Opinberlega hefur Shakira ítrekað neitað sök og hafði áður hafnað tilboðum saksóknar um sátt. BBC fjallar um málið og hefur eftir henni að dómsáttin sé gerð með velferð barna hennar í huga.

„Þrátt fyrir að ég væri harðákveðin í að verja sakleysi mitt í réttarhöldum þar sem lögmenn mínir voru fullvissir um að ég myndi hafa betur, þá hef ég tekið þá ákvörðun um að leysa málið með velmegun barna minna í huga sem vilja ekki sjá móður sína fórna sinni eigin velferð í þessum bardaga,“ segir í yfirlýsingu frá Shakiru.

Þessi skattalagabrot poppstjörnunnar eiga að hafa átt sér stað frá árinu 2012 til 2014. Á þeim tíma var Shakira spænskur ríkisborgari í hálft ár.

Spænskir saksóknarar eiga að hafa verið tilbúnir að kalla til 117 vitni í dómsmálinu sem átti að hefjast í dag dómsmáli í Barselóna. 

Á meðal þessara vitna var hárgreiðslufólk, danskennarar, þerapistar, og einkabílstjóri Shakiru.

Uppfært:

Spænski fjölmiðillinn El País hefur greint frá því að í dómsáttinni hafi falist að Shakira myndi greiða sjö milljón evra sekt og vera dæmd í þriggja ára fangelsi. Shakira mun þó ekki afplána dóminn, þar sem hún mun greiða aðra sekt, upp á rúmlega 400 þúsund evrur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×