Erlent

Sagðar meðal verstu árása sem Rússar hafa orðið fyrir

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar eru sagðir hafa misst Ka-52 árásarþyrlur, sem eru meðal háþróuðustu hergagna Rússlands.
Rússar eru sagðir hafa misst Ka-52 árásarþyrlur, sem eru meðal háþróuðustu hergagna Rússlands. Getty/Andia

Úkraínumenn segjast hafa grandað minnst níu herþyrlum Rússa, loftvarnarkerfi, skotfærum og öðrum hergögnum í árásum á tvo flugvelli í nótt. Rússneskir herbloggarar segja árásirnar meðal þeirra alvarlegustu sem Rússar hafa orðið fyrir í stríðinu.

Árásirnar beindust að flugvöllum nærri Berdíansk í suðurhluta Úkraínu og að flugvelli við Lúhansk, í austurhluta landsins.

Fregnir bárust af árásunum í nótt og sögðu rússneskir herbloggarar frá því að flugmenn hefðu fallið og að þyrlur hefðu orðið fyrir skemmdum. Sérsveitir Úkraínu sendu svo í morgun út yfirlýsingu þar sem því er haldið fram að níu herþyrlur hafi verið eyðilagðar. Því er einnig haldið fram að vöruskemma fyrir skotfæri hafi sprungið og að flugbrautir hafi orðið fyrir skemmdum.

Úkraínumenn eru sagðir hafa skemmt Ka-52 herþyrlur en þær eru meðal háþróuðustu hergagna Rússa og hafa reynst Úkraínumönnum skæðar í sókn þeirra í suðurhluta Úkraínu.

Þá segir í yfirlýsingunni, sem sjá má hér, að Rússar hafi misst tugi manna. Aðgerðin ber titilinn „Dragonfly“ eða Drekaflugan.

Áðurnefndir herbloggarar hafa sagt að Úkraínumenn hafi notað fjölmargar eldflaugar við þessar árásir. Þessir bloggarar hafa haldið því fram að eldflaugarnar hafi verið allt að fjörutíu talsins og að nokkrar þeirra hafi borið klasasprengjur.

Þá segja bloggarar að eldflaugarnar hafi verið bandarískar ATACMS-eldflaugar, sem Úkraínumenn fengu nýverið frá Bandaríkjunum. Það hefur þó ekki verið staðfest og er ekki nefnt í yfirlýsingu sérsveita Úkraínu. Myndefni af klasasprengjum sem sprungu ekki, rennir þó stoðum undir það að um sé að ræða fyrstu ATACMS-árásina sem vitað er af.

ATACMS stendur fyrir Army Tactical Missile System og tilkynnti Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í september að slíkar eldflaugar yrðu sendar til Úkraínu, en Úkraínumenn hafa beðið um þær allt frá því stríðið hófst.

Sjá einnig: Biden lofar Selenskí nýjum eldflaugum

ATACMS drífa allt að þrjú hundruð kílómetra en hægt er að skjóta þeim með HIMARS-vopnakerfum sem Úkraínumenn hafa fengið frá Bandaríkjamönnum og Bretum.

Storm Shadow og Scalp stýriflaugar sem Úkraínumenn hafa fengið frá Bretum og Frökkum geta borið um 450 kílóa sprengihleðslu eru sagðar drífa rúma 250 kílómetra. Þeim er þó eingöngu hægt að skjóta með breyttum orrustuþotum.

Óljóst er hve margar ATACMS Úkraínumenn hafa fengið og munu fá frá Bandaríkjunum. Fregnir hafa borist af því að Bandaríkjamenn eigi tiltölulega fáar en Lockheed Martin framleiðir um fimm hundruð ATACMS á ári. Flestar þeirra eru þegar lofaðar öðrum bandamönnum Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Reyna að umkringja úkraínska hermenn

Rússneskar hersveitir hafa á undanförnum dögum gert umfangsmiklar árásir við bæinn Avdívka í austurhluta Úkraínu. Markmið þeirra virðist hafa verið að skera á birgðalínur úkraínskra hermanna í borginni en áhlaupið hefur skilað takmörkuðum árangri hingað til.

Þvinga fanga til að flytja skotfæri gegnum jarðsprengjusvæði

Rannsakendur Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna segjast hafa staðfest að sex úkraínskir stríðsfangar hafi verið teknir af lífi af föngurum sínum. Stofnunin hefur einnig staðfest tvær grimmilegar aftökur úkraínskra manna sem tekin voru upp á myndbönd sem birt voru á netinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×