Erlent

Banda­ríkin geti „gengið og tuggið tyggjó á sama tíma“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðherrarnir funduðu í morgun og efndu til blaðamannafundar fyrir stundu. Þessi mynd er hins vegar frá því í mars á þessu ári.
Ráðherrarnir funduðu í morgun og efndu til blaðamannafundar fyrir stundu. Þessi mynd er hins vegar frá því í mars á þessu ári. epa/Atef Safadi

„Bandaríkin geta gengið og tuggið tyggjó á sama tíma,“ sagði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi með Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, nú fyrir stundu.

Var Austin að ræða getu Bandaríkjamanna til að styðja Ísrael og Úkraínu á sama tíma.

„Hamas lét til skarar skríða á sama tíma og alþjóðlegar áskoranir blasa við en Bandaríkin eru öflugasta ríki heims,“ sagði Austin. „Bandaríkin standa við bakið á Ísrael; það er óumsemjanlegt og verður aldrei.“

Austin sagði gott að vera kominn aftur til Ísrael, jafnvel þótt tilefnið væri hörmulegt. Ráðherrann sagðist hafa komið í eigin persónu til að undirstrika að það væri meitlað í stein að Bandaríkin myndu styðja Ísrael.

Hann sagði algjöra samstöðu ríkja með þeim fjölskyldum sem lifðu nú vakandi í martröð og vissu ekki um örlög ástvina sína. Ísrael væri lítið land og það magnaði nánd þeirrar sorgar sem þjóðin upplifði.

Austin sagði Bandaríkin myndu tryggja að Ísraelar hefðu allt það sem þeir þyrftu til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Umheimurinn hefði orðið vitni að mikilli illsku þegar Hamas-samtökin gerðu árás á laugardag en Hamas talaði ekki fyrir Palestínumenn.

„Þetta er ekki tími fyrir hlutleysi, fyrir að leggja hlutina falskt að jöfnu eða fyrir að réttlæta hið óréttlætanlega,“ sagði Austin. Hann ítrekaði hins vegar að það væri stríðsglæpur að beina spjótum sínum að almennum borgurum og sagði lýðræðið standa styrkari fótum þegar farið væri að lögum.

Gallant sagði stuðning Bandaríkjamanna, ekki síst aukinn viðbúnað þeirra á svæðinu, senda skýr skilaboð. Hann sagði Hamas „ISIS Gasa“ og að samtökin væru á launaskrá Írana.

„Morð, nauðganir, mannrán. Það er það sem við stöndum frammi fyrir í þessu stríði,“ sagði hann. Hann sagði um að ræða stríð á hendur Ísrael, sem væri heimaland gyðinga, og að barist væri um frelsi og sameiginleg gildi.

„Við stöndum í framlínunni. Við höldum áfram að berjast og við munum vinna þetta stríð. Við munum hafa sigur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×