Erlent

Finnski herinn rann­sakar nýjan gas­leka í Eystra­salti

Atli Ísleifsson skrifar
Petteri Orpo er forsætisráðherra Finnlands.
Petteri Orpo er forsætisráðherra Finnlands. EPA

Her og öryggislögregla Finnlands rannsaka nú mögulegan leka í gasleiðslu sem tengir Finnland saman við norðurevrópska gasleiðslunetið. Aðfararnótt sunnudagsins lækkaði þrýstingurinn skyndilega í einni leiðslunni.

Finnski ríkisfjölmiðillinn YLE segir að um sé að ræða gasleiðsluna Balticconnector sem tengi finnska gasleiðslunetið við það sunnar í álfunni. Leiðslan liggur milli Inkoo í Finnlandi og Paldiski í Eistlandi og hefur verið í notkun frá byrjun árs 2020.

Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, og varnarmálaráðherrann Antti Häkkänen hafa boðað til blaðamannafundar vegna málsins síðar í dag. Heimildir YLE benda til að finnskum stjórnvöldum gruni að Rússar kunni að tengjast lekanum.

SVT hefur eftir Janne Grönlund, forstjóra finnska orkufyrirtæksins Gasgrid, að búið sé að loka á flæði gass í leiðslunni. Það hafi verið gert mjög fljótlega eftir að þrýstingurinn lækkaði skyndilega, en talið sé að leiðslan komi ekki til með að vera í notkun næstu mánuðina vegna málsins.

Gasgrid vill ekkert segja til um hvað kunni að hafa valdið lekanum en ljóst má vera að litið sé á málið sem öryggisbrest. Finnska landhelgisgæslan kemur einnig að málinu.

Norrænir fjölmiðlar segja að það sem af er degi hafa fjölmörg skip verið á þeim slóðum þar sem talið sé að lekinn sé.

Um ár er síðan Nord Stream gasleiðslurnar í Eystrasalti voru sprengdar.


Tengdar fréttir

Enn lítið um svör, ári frá sprengingunum

Ár er liðið frá því Nord Stream gasleiðslurnar voru skemmdar í sprengingum á botni Eystrasalts. Skemmdarverkið er til rannsóknar í nokkrum ríkjum en enn er ekki búið að varpa ljósi á því hverjir sprengdu leiðslurnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×