Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr langþráðum Blikasigri og góðri heimsókn Akureyringa í Laugardalinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði gegn sínu gamla félagi.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði gegn sínu gamla félagi. vísir/vilhelm

Eftir fimm leiki í röð án sigurs vann Breiðablik Stjörnuna, 2-0, í úrslitakeppni efri hluta Bestu deildar kvenna í gær.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik kom Katrín Ásbjörnsdóttir Blikum yfir gegn sínum gömlu félögum þegar hún skoraði með skoti á lofti eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur.

Á 69. mínútu bætti Andrea Rut Bjarnadóttir öðru marki við. Hún fylgdi þá eftir eigin skoti sem Erin McLeod varði.

Með sigrinum endurheimtu Blikar 2. sæti deildarinnar. Þeir eru með 37 stig, tveimur stigum meira en Stjörnukonur.

Klippa: Breiðablik 2-0 Stjarnan

Þróttur varð af mikilvægum stigum í baráttunni um Evrópusæti þegar liðið beið lægri hlut fyrir Þór/KA á heimavelli, 0-2.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 48. mínútu kom Sandra María Jessen Þór/KA með góðu vinstri fótar skoti. Jakobína Hjörvarsdóttir jók muninn svo í 0-2 þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Þróttur er í 4. sæti deildarinnar með 34 stig en Þór/KA í því fimmta með 32 stig.

Klippa: Þróttur 0-2 Þór/KA

Íslandsmeistarar Vals unnu 3-1 sigur á FH á heimavelli. Amanda Andradóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 31. mínútu og kom Valskonum yfir. Tíu mínútum síðar jafnaði Snædís María Jörundsdóttir fyrir Stjörnukonur.

Á 65. mínútu kom Arna Sif Ásgrímsdóttir Val aftur yfir þegar hún skallaði fyrirgjöf Ásdísar Karenar Halldórsdóttur í netið. Laura Frank skoraði svo þriðja mark Valskvenna með skalla í uppbótartíma.

Klippa: Valur 3-1 FH

Öll mörkin úr leikjum gærdagsins í Bestu deild kvenna má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×