Íslenski boltinn

„Gríðarlega gott að taka þrjú stig af Val“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan sótti þrjú stig gegn nýkrýndum Íslandsmeisturum Vals fyrr í kvöld. Leiknum leik með 1-0 sigri í jöfnum og spennandi leik. Stjarnan fer með þessum sigri upp í annað sæti deildarinnar. 

„Það er held ég bara eitt lið sem hefur tekið þrjú stig frá Val fyrr í sumar ef ég man rétt. Allavega er gríðarlega gott að taka þrjú stig af Val og leikmenn spiluðu bara og hlupu þennan leik mjög vel“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, strax að leik loknum. 

Stjarnan hefur staðið í stífu leikjaálagi síðustu vikur, liðið keppti tvo leiki í Meistaradeildinni í síðustu viku og sá síðari fór alla leið í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Kristján segir liðið hafa sýnt gott orkustig í leiknum þrátt fyrir það. 

„Merkilega vel gert hjá þeim, við kannski bjuggumst við að þurfa að skipta meira, en við fylgdumst vel með þeim og skiptum þeim útaf sem að þurftu að fara útaf og það kom okkur á óvart hvað þær hlupu svakalega í leiknum og sýndu mikinn vilja til að vinna leikinn.“

Það er stutt í næsta leik, en liðið mætir Breiðablik strax á sunnudaginn kemur. Kristján vonar að liðið nái að jafna sig og safna kröftum fyrir það.  

„Ég held að þetta verði allt í lagi, það kemur betur í ljós á morgun hvernig við erum stemmd fyrir sunnudaginn. Við höfum bara tvo daga en það verða tveir góðir dagar þannig að, ekkert mál.“

Með sigri gegn Breiðablik fer Stjarnan langleiðina með að tryggja sér annað sætið. Þar gerir þjálfarinn ráð fyrir jöfnum og erfiðum leik.

„Ég býst við öðrum svona jöfnum leik þar sem allt verður lagt í sölurnar af báðum liðum. Það verðu hörku, hörku leikur, það verður vel tekist á því og það þarf sterka dómara í þann leik. Það tel ég alveg ljóst“ sagði Kristján að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×