Þetta er í fyrsta sinn í sem Kim fer út fyrir landamæri Norður-Kóreu í nokkur ár og kemur í kjölfar þess að hann og Pútín eru sagðir hafa sent bréf sín á milli og rætt saman í síma.
Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu hefur eftir embættismönnum þar að verið sé að aka lestinni til Rússlands en ekki hefur verið staðfest að Kim sé um borð. Hann hefur áður notað lestina til að fara til Rússlands og til Kína.
Síðast þegar Kim fór til útlanda fór hann einnig til Vladivostok en það var árið 2019.
Umrædd lest sem Kim notast við er sögð vera mynduð úr minnst tuttugu skotheldum lestarvögnum og er hún þess vegna gríðarlega þung. Í frétt BBC segir að lestin fari ekki hraðar en 59 kílómetra á klukkustund.
Ráðamenn í Bandaríkjunum halda því fram að Pútín sé að reyna að verða sér út um skotfæri fyrir stórskotalið og önnur hergögn til að nota við innrás Rússa í Úkraínu.
Stórskotalið skiptir sköpum í átökunum í Úkraínu og er mikið notað af báðum fylkingum. Bandaríkjamenn segja að refsiaðgerðir vegna innrásarinnar í Úkraínu hafi komið niður á hergagnaframleiðslu Rússa og að því leyti þeir aðstoðar.
Erfitt er að segja til um hve miklum birgðum af sprengikúlum fyrir stórskotalið Kim situr á, þar sem tiltölulega litlar upplýsingar berast frá einræðisríkinu.
Kim er talinn vonast eftir aðstoð við þróun langdrægra eldflauga sem geta borið kjarnorkuvopn ríkisins. Norður-Kórea hefur um árabil unnið að þróun slíkra vopna og er það í trássi við ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Rússar gætu einnig sent Kim matvæli en fregnir berast reglulega af uppskerubrestum og hungursneyð þar í landi.
Norður-Kórea hefur verið beitt umfangsmiklum refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum vegna vopnaáætlana einræðisríkisins.