Kirby sagði Rússa leita að frekari skotfærum fyrir stórskotalið og öðrum aðföngum fyrir hergagnaframleiðslu í Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Sergei Shoigu, varnarmálráðherra Rússlands, ferðaðist nýverið til Norður-Kóreu og var það í fyrsta sinn sem tekið var opinberlega á móti erlendum gesti þar í nokkur ár.
Kirby sagði einnig, samkvæmt AP fréttaveitunni, að viðræðurnar væru ekki langt á veg komnar en þeim miðaði þó áfram.
Meðlimir ríkisstjórnar Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, hafa um nokkuð skeið haldið því fram að Rússar reiði sig mjög á skotfæri frá Norður-Kóreu og Íran, en bæði ríkin eru mjög einangruð á alþjóðasviðinu vegna mannréttindabrota og þróun þeirra á kjarnorku og í tilfelli Norður-Kóreu, kjarnorkuvopnum.
Bandaríkjamenn sögðu frá því í fyrra að málaliðahópurinn Wagner Group hefði tekið móti sendinum af skotfærum frá Norður-Kóreu og var því svo haldið fram í mars að Rússar væru að leitast eftir frekari skotfærum og þá í skiptum fyrir matvæli og aðrar vöru.
Stórskotalið hefur skipt sköpum í stríðinu í Úkraínu fyrir bæði Rússa og Úkraínumenn. Báðar fylkingar hafa á köflum skort skotfæri fyrir stórskotalið enda hefur þúsundum sprengikúla verið skotið á dag í átökunum. Hergagnaiðnaðurinn í Rússlandi er á yfirsnúningi og er einnig verið að auka framleiðslu í Bandaríkjunum og í Evrópu.
Bakhjarlar Úkraínu hafa leitað víða um heim að skotfærum fyrir Úkraínumenn og hafa til að mynda keypt töluvert magn frá Suður-Kóreu. Þá hafa Bandaríkjamenn sent klasasprengjur til Úkraínu en gífurlegt magn þeirra má finna í vopnabúrum vestanhafs.