Enski boltinn

Antony neitar á­sökunum um líkam­legt og and­legt of­beldi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antony gekk í raðir Manchester United sumarið 2022.
Antony gekk í raðir Manchester United sumarið 2022. Naomi Baker/Getty Images

Antony, vængmaður Manchester United, segir ekkert til í ásökunum Gabriela Cavallin - fyrrverandi kærustu hans. Gabriela segir leikmanninn hafa beitt sig andlegu og líkamlegu ofbeldi á meðan þau voru saman.

Í sumar sagði Gabriela Cavallin að Antony hefði beitt hana heimilisofbeldi þegar þau voru saman. Þá voru talin upp fjögur atvik, þar á meðal eitt þegar Gabriela var ólétt af barni þeirra. Hún missti fóstrið og parið fyrrverandi á því ekki barn saman.

Í dag, mánudag, birti brasilíska fréttaveitan UOL frekari sönnunargögn sem styðja við frásögn Gabrielu. Þar á meðal eru skjáskot af samtölum þeirra á milli á samfélagsmiðlinum WhatsApp sem og myndir af meiðslum sem Antony olli.

Á hann að hafa ráðist að henni í júní á síðasta ári þegar hún var ólétt. Antony ku hafa gert það í bifreið sem og hann hótaði að henda Gabrielu út úr bifreiðinni þegar hún var á ógnarhraða. Síðan í janúar á þessu ári á hann að hafa ráðist á hana sem leiddi til þess að hún fékk skurð á höfuðið og sílíkonpúði í öðru brjósti hennar færðist úr stað.

Að lokum átti sér stað atvik í maí á þessu ári sem endaði með því að Gabriela slasaðist á fingri. Í kjölfarið ákvað hún að fara frá Antony og skömmu síðar ákvað hún að opinbera í fjölmiðlum hvað gekk á meðan þau voru saman.

„Ég var mjög hrifin í upphafi sambands okkar. Á þessum lokadegi, þann 8. maí, var ég það hrædd að ég vissi ekki hvort ég kæmist út úr húsinu,“ sagði Gabriela um lok sambandsins.

Antony neitar sök. Talsmenn hans vildu ekki tjá sig þegar UOL hafði samband. Manchester United tók í sama streng þegar Daily Mail hafði samband við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×