Íslenski boltinn

Sandra opin í að snúa aftur í ís­­lenska lands­liðið: „Hætt við að hætta“

Aron Guðmundsson skrifar
Sandra Sigurðardóttir hefur tekið markmannshanskana af hillunni og er klár í slaginn með íslenska landsliðinu ef kallið kemur.
Sandra Sigurðardóttir hefur tekið markmannshanskana af hillunni og er klár í slaginn með íslenska landsliðinu ef kallið kemur. Vísir/Sigurjón Ólason

Sandra Sigurðardóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður og leikjahæsti leikmaður sögunnar í efstu deild kvenna í fótbolta er klár í að snúa aftur í íslenska landsliðið. Hanskarnir eru komnir af hillunni.

Sandra hefur nú leikið 332 leiki í efstu deild á Ís­landi fyrir Þór/KA/KS, Stjörnuna og Val og skorað eitt mark. Hún hefur sex sinnum orðið Ís­lands­meistari með Val og Stjörnunni og fjórum sinnum bikar­meistari. Þá lék hún eitt tíma­bil í Sví­þjóð með Jitex.

Fyrr á þessu, nánar til­tekið í mars, lagði Sandra mark­manns­hanskana á hilluna. En í gær lék hún sinn fyrsta leik í efstu deild með Val í tæpt ár eftir að hafa undan­farnar vikur æft með fé­laginu og þar áður hjálpað liði Grinda­víkur fyrr í sumar. Hún er hætt við að hætta í fót­bolta.

„Þetta hefur verið krefjandi tími, ég ætla alveg að vera heiðar­leg með það,“ segir Sandra í sam­tali við frétta­stofu um tímann frá því að hún tók á­kvörðun um að láta gott heita af fót­bolta­ferlinum. „Ég stend alveg við þessa á­kvörðun sem ég tók á sínum tíma en þetta hefur verið virki­lega erfitt. Ég efaðist oft á tíðum um þessa á­kvörðun en nú er ég komin aftur.“

Sandra er leikjahæsti leikmaður efstu deildar kvenna frá upphafiVísir/Hulda Margrét

„Þekki ekkert annað“

Sandra hefur æft með Ís­lands­meisturum Vals upp á síðkastið, þar sem að hún hefur unnið fjölda titla. Á undan­förnum vikum hefur hún verið á meðal vara­manna í leikjum liðsins en í gær dró til tíðinda er hún var mætt í byrjunar­liðið í leik gegn Kefla­vík á kunnug­legum slóðum, Origovellinum.

„Mér leið eins og ég hefði ekkert farið í burtu,“ segir Sandra um til­finninguna að spila á nýjan leik á Origovellinum. „Það kveikti helling í mér að taka þessa tvo leiki með Grinda­vík fyrr í sumar þegar að ég fór til fé­lagsins á neyðar­láni.

Nú hef ég verið að æfa á fullu með Val upp á síð­kastið og hafði fyrir þetta neyðar­lán hjá Grinda­vík verið að mæta á eina og eina æfingu. Pétur (þjálfari Vals) vissi það alveg upp á hár að það kitlaði mig enn að snúa aftur á völlinn, hann hafði því sam­band þegar að Valur lenti í smá veseni með mark­manns­málin og ég var til í að stökkva inn.“

Sandra tók fram hanskana fyrr í sumar og lék í marki Grindavíkur.Vísir/SJJ

Á þessum vikum, jafn­vel mánuðum, sem liðu eftir að þú á­kvörðun um að leggja hanskana á hilluna. Var fót­boltinn alltaf að toga í þig?

„Já það má segja það að á­kveðnu leiti, ég þekki ekkert annað en að vera í fót­bolta. Á þessum tíma var ég í brasi með að hugsa út í það hvernig ég ætti að vera í sumar­fríi, hvað ég ætti eigin­lega að gera við sjálfa mig því ég hafði æft fót­bolta frá því að ég var fimm ára.

Þetta (að vera fjarri fót­boltanum) var erfiðara en ég hafði gert mér grein fyrir og því er það ó­trú­lega gaman að vera komin aftur.“

En þegar að þú segir „komin aftur“, ertu endan­lega komin aftur? Hvernig horfir fram­haldið við þér?

„Eins og staðan er í dag þá er ég hætt við að hætta. Ég tek vissu­lega bara einn dag í einu en þetta verk­efni sem ég tek að mér hérna í Val er með það mark­mið að koma okkur sem lengst í Evrópu­keppninni. Það er gríðar­lega spennandi verk­efni sem gæti teygt sig fram í janúar ef allt gengur vel.

Hvernig sem að mín þátt­taka verður í því langar mig að taka þátt í því. Ég er komin hérna inn í Val með mikla sam­keppni í Fann­eyju Ingu sem er einn efni­legasti mark­vörður Ís­lands. Það er því ekkert sjálf­sagt að ég vinni mér inn sæti í byrjunar­liðinu, alls ekki, en ég er þó komin til að taka slaginn.“

Vill aftur í íslenska landsliðið

Sandra á að baki 49 A-lands­leiki fyrir Ís­lands hönd og hefur verið einn af full­trúum þjóðarinnar á stór­móti.

Ís­lenska lands­liðið hefur, í septem­ber, leik í Þjóða­deild UEFA og á dögunum bárust vondar fréttir af einum af okkar bestu mark­vörðum, Cecilíu Rán Rúnars­dóttur sem verður lengi frá vegna hné­meiðsla.

Ert þú opin fyrir endur­komu í ís­lenska lands­liðið?

„Já ég held ég geti alveg sagt það. Ég er all-in í því sem ég er að gera núna.“

Sandra í leik með íslenska landsliðinuGetty

Þannig ef að Þorsteinn landsliðsþjálfari myndi taka upp símann og hringja í þig þá myndirðu svara kallinu?

„Já ef hann myndi hafa samband við mig, þá er ég opin fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×