Erlent

Borgar­yfir­völd í Barcelona dreifa vatni og der­húfum til heimilis­lausra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ferðamenn í Barcelona freista þess að skýla sér frá sólinni.
Ferðamenn í Barcelona freista þess að skýla sér frá sólinni. epa/Alejandro Garcia

Hitamet hafa fallið síðustu nætur í Barcelona, þar sem hitinn fór lægst í um 30 gráður á 24 klukkustunda tímabili. Hitinn í gær fór í 38,8 stig, sem er nýtt met en gamla metið var 37,4 gráður.

Ef marka má fregnir erlendra miðla er einnig mikill raki í loftinu og útivera getur verið allt að því óbærileg. Borgaryfirvöld hafa gefið út hitaviðvörun og dreift vatni og derhúfum til heimilislausra.

Um það bil 3.600 einstaklingar sem tilheyra viðkvæmum hópum hafa fengið textaskilaboð frá yfirvöldum, með ráðleggingum um hvernig best er að vernda sig fyrir hitanum og ábendingum um „hita-afdrep“ þar sem fólk getur komist í loftkælt rými og náð sér í vatn.

Búið er að setja af stað neyðaráætlun sem miðar að vökvun 310 þúsund trjáa borgarinnar eftir að pálmatré féll á unga stúlku í síðustu viku. Stúlkan lést í slysinu.

Ítrekaðar hitabylgjur hafa gengið yfir Spán frá því í júní. Hitinn í dag mun ná 40 gráðum á sumum svæðum en gert er ráð fyrir kaldara veðri um helgina, nema í suð-austurhluta landsins.

Veðurfræðingar spá allt að 10 stiga kulnun á sunnudag og nokkurri rigningu en þó ekki nægri til að bæta upp langvarandi þurrk. Hann hefur verið hvað mestur í Andalúsíu og Katalóníu.

Nokkrir voru lagðir inn á sjúkrahús með hitaslag í Bilbao í gær, þar sem hitinn náði 43 stigum. Hitaveðrið mun færast suður í dag og verða verst í La Rioja og Zaragoza.

Veðrið hefur komið niður á vín- og ólífuolíuframleiðslu en síðarnefnda dróst saman um helming á síðasta ári og gert er ráð fyrir svipaðri afkomu í ár. Úrvals olía hefur hækkað í verði vegna takmarkaðs framboðs, sem hefur leitt til samdráttar í sölu.

Spánn er stærsti framleiðandi ólífuolíu í heiminum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×