Enski boltinn

Laporte kveður City en Matheus Nu­nes gæti verið á leiðinni til meistaranna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nunes mótmælir rauða spjaldinu sem hann fékk í tapi Wolves gegn Brighton um helgina.
Nunes mótmælir rauða spjaldinu sem hann fékk í tapi Wolves gegn Brighton um helgina. Vísir/Getty

Varnarmaðurinn Aymeric Laporte kvaddi í dag stuðningsmenn Manchester City í færslu á samfélagsmiðlum. Í kvöld bárust síðan fréttir af því að City hefði lagt fram tilboð í leikmann Wolves.

Aymeric Laporte hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Pep Guardiola síðustu misserin. Í dag skrifaði hann færslu á samfélagsmiðla þar sem hann kvaddi félagið og stuðningsmenn þess. Fréttir herma að hann hafi samið við Al-Nassr í Sádi Arabíu.

„Í dag langar mig að deila með ykkur sögu,“ sagði í yfirlýsingu Laporte en í kjölfarið birtist myndband sem sýndi hápunkta ferils hans hjá City.

„Þetta er okkar saga. Takk fyrir og ég sé ykkur fljótlega. Þetta hafa verið fimm og hálft ógleymanleg ár.“

Þetta er ekki það eina sem er um að vera á skrifstofunni hjá City. Félagið er nálægt því að ganga frá kaupunum á Jeremy Doku frá franska liðinu Rennes en búist er að tilkynnt verði formlega um komu belgíska landsliðsmannsins á morgun.

Í kvöld greindi síðan Fabrizio Romano frá því að City hafi lagt fram fyrsta tilboð sitt í Matheus Nunes sem leikur með Wolves. Nunes er 24 ára landsliðsmaður Portúgal og kom til Wolves fyrir síðasta tímabil frá Sporting frá Lissabon.

Romano segir að tilboð City hljóði upp á 50 milljónir evra og að Nunes sé nú þegar búinn að ná samkomulagi um kaup og kjör við félagið. Því virðist aðeins tímaspursmál hvenær gengið verður frá kaupunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×