Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - Fylkir 5-1 | Blikar blésu til veislu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Breiðablik keyrði yfir Fylki undir lok leiks.
Breiðablik keyrði yfir Fylki undir lok leiks. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu öruggan 5-1 sigur á nýliðum Fylkis í Bestu deild karla í knattspyrnu þrátt fyrir að brenna af vítaspyrnu í fyrri hálfleik.

Leikur liðanna fór hægt af stað og náði í raun aldrei miklum hæðum í fyrri hálfleik. Líkt og gera mátti ráð fyrir héldu Blikar meira í boltann og voru sterkari aðilinn í hálfleiknum sem má lýsa sem hornspyrnukonserti. Marktilraunir beggja liða samanlagt má telja á fingrum annarrar handar á meðan hornspyrnurnar voru í tveggja stafa tölu.

Blikar fengu þó færi. Klæmint Olsen var tekinn niður í teig Fylkis eftir stundarfjórðungsleik. Höskuldur Gunnlaugsson, sem var eini leikmaður Breiðabliks sem skoraði í 3-1 tapinu í vítaspyrnukeppni fyrir KA í bikarnum fyrr í vikunni, tókst hins vegar ekki að leika það eftir.

Ólafur Kristófer Helgason stóð og beið eftir hægu tilhlaupi Höskuldar sem virtist vera að bíða eftir að Ólafur hreyfði sig fyrst. Hann valdi rétt og varði frábærlega niðri í hægra horninu.

Blikum tókst hins vegar að brjóta ísinn á 28. mínútu þegar Skagamaðurinn Oliver Stefánsson átti fallega sendingu frá vinstri yfir á hægri kantinn þar sem Jason Daði Svanþórsson fann svæði. Jason tók létt dansspor, skildi Arnór Breka Ástþórsson eftir í reyk og afgreiddi afar vel.

Þetta var fyrsta mark Jasons Daða í deildinni í sumar og það aðskildi liðin í hléi.

Meiri ákefð eftir hlé

Eftir heldur daufan fyrri hálfleik mættu Blikar afar beittir til leiks eftir hlé og þegar aðeins sjö mínútur voru liðnar tvöfaldaði Damir Muminovic forystu Breiðabliks með skalla eftir hornspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar frá hægri, þar sem dekkning Fylkis klikkaði hrapallega.

Orri Steinn Stefánsson minnkaði muninn fyrir Fylki, einnig eftir hornspyrnu, á 67. Mínútu en þar fékk hann frían skalla inni á miðjum markteig og má setja spurningarmerki við bæði áræðni varnarmanna og markvarðar Blika í því marki.

Eftir það tók við fjörugasti kafli leiksins þar sem sótt var sitt á hvað. Ágúst Eðvald Hlynsson og Klæmint Olsen höfðu fengið sitthvort færið fyrir þá grænklæddu áður en Anton Logi Lúðvíksson tvöfaldaði forskot Blika öðru sinni eftir glæsilegan samleik við Gísla Eyjólfsson á 72. mínútu.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson kom Blikum þá 4-1 yfir átta mínútum síðar þegar Fylkismenn klikka aftur í að verjast hornspyrnu þar sem Anton Logi fékk mikið pláss til að renna knettinum á Arnór sem lagði boltann í netið af markteig. Arnór að skora sitt fyrsta mark í sumar, rétt eins og þeir þrír sem á undan honum skoruðu fyrir Breiðablik í leiknum.

Gísli Eyjólfsson kom af varamannabekknum í síðari hálfleiknum og hann rak síðasta naglann í kistu Árbæinga í uppbótartíma með lúmsku skoti. 5-1 sigur Breiðabliks staðreynd og binda þeir þannig enda á fjögurra leikja hrinu án sigurs í deild.

Breiðablik er með 27 stig í þriðja sæti deildarinnar, tíu stigum frá toppliði Víkings, en tveimur frá Val sem er sæti ofar og á leik inni á tvö fyrrnefndu liðin.

Fylkir er með tólf stig í ellefta sæti, stigi frá öruggu sæti og tveimur á eftir Stjörnunni og Fram sem eru í 8.-9. sæti.

Af hverju unnu Blikar?

Sterkari aðilinn allan leikinn. Juku hraðann og ákefðina eftir hlé og skipti þá miklu að ná að skora snemma eftir að Fylkir minnkaði muninn. Flott frammistaða og sigurinn aldrei í mikilli hættu.

Hverjir stóðu upp úr?

Damir Muminovic var öflugur í miðverðinum. Anton Logi Lúðvíksson stóð sig vel og lagði upp auk þess að skora. 

Hvað fór illa?

Fylkismenn fengu á sig tvö mörk eftir föst leikatriði sem reyndist þeim dýrt. Slappur varnarleikur í þeim báðum. Stóðu fínt varnarlega stóran hluta leiks en það er erfitt að eiga við Blika í ham.

Hvað gerist næst?

Fylkir mætir Val í Bestu deildinni að Hlíðarenda á miðvikudagskvöldið. Breiðablik heldur til Dyflinnar um helgina og sækir Írlandsmeistara Shamrock Rovers heim í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira