Íslenski boltinn

Fylkismenn geti ekki hætt sér hátt og pressað: „Við skíttöpuðum þessu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar Páll var ósáttur að leik loknum.
Rúnar Páll var ósáttur að leik loknum. Vísir/Diego

„Mér líður ekkert vel,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, eftir 5-1 tap liðs hans fyrir Breiðabliki í Bestu deild karla í kvöld.

„Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik og fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik. Þá fannst mér við halda vel í þetta. Blikarnir refsuðu okkur bara, grimmilega. Tvö mörk úr föstum leikatriðum þegar við erum búnir að spila fínan varnarleik lengst af,“ segir Rúnar Páll eftir leik.

Fylkismenn hættu sér framar á völlinn á seinni hluta leiksins eftir að þeir minnkuðu muninn um miðjan síðari hálfleik. Blikar svöruðu fljótt með þriðja marki sínu og komust í 3-1 en svo fylgdu tvö mörk í viðbót á lokakaflanum.

Geti ekki pressað

Rúnar segir sína menn einfaldlega ekki geta hætt sér svo hátt gegn svo sterkum andstæðingi.

„Við urðum að gera eitthvað og reyna að pressa. Við það opnast allt hjá okkur. Það er ástæðan fyrir því að við spilum svona aftarlega með þessa vörn. Þetta er ástæðan. Við erum alltof viðkvæmir og brotthættir þegar við förum að pressa og förum hátt á andstæðingana,“

„Við getum það ekki. Það er bara svoleiðis,“ segir Rúnar Páll sem segir sína menn hafa fengið fullmörg mörk á sig miðað við frammistöðuna sem liðið sýndi.

„Þetta er búið, við skíttöpuðum þessu, sanngjarnt. En það er algjör óþarfi að fá svona mörg mörk á sig.“

Afar strembið prógram

Fylkismenn hafa leikið fimm leiki án sigurs í deildinni og töpuðu síðustu tveimur fyrir Víkingi og Blikum í kvöld. Þriðja toppliðið, Valur, er næsti andstæðingur í strembinni leikjatörn.

„Við erum búnir með tvo af þremur. Við eigum Val eftir. Við þurfum bara að halda áfram, liðið er í þróun. Þetta er allt lærdómur, hver einasti leikur sem við förum í og við lærum af þessum leik núna en svo mætum við galvaskir inn í leikinn á miðvikudaginn við Val á miðvikudaginn,“ segir Rúnar Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×