Enski boltinn

Mál fyrir­liða Man United aftur fyrir dómara í febrúar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire er fyrirliði Manchester United.
Harry Maguire er fyrirliði Manchester United. EPA-EFE/Peter Powell

Réttað verður að nýju yfir Harry Maguire í febrúar á næsta ári, tæpu þremur og hálfu ári eftir að hann var handtekinn í Grikklandi.

Harry Maguire, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United og varnarmaður enska landsliðsins, var handtekinn af grísku lögreglunni sumarið 2020. Í ágúst sama ár var hann fundinn sekur í þremur ákæruliðum. Þar á meðal að ráðast á lögreglumann og að reyna múta dómstólum á eyjunni Syros.

Hinn þrítugi Maguire fékk 21. mánaðar skilorðsbundinn dóm. Lögmenn hans mótmæltu dómnum og var hann að endingu talinn saklaus uns sekt væri sönnuð.

Maguire var í fjölskyldufrí í Grikklandi þegar atvikið átti sér stað. Heimildir grískra fjölmiðla sega Maguire hafa lent upp á kant við einstakling fyrir utan bar og svo veist að lögreglu þegar hún mætti á svæðið.

Leikmaðurinn segist hafa óttast um líf sitt eftir að hann hafi reynt að koma í veg fyrir að menn væru að áreita systur hans. Þá sagði hann lögregluna hafa kýlt sig með kylfum í lappirnar sem og þeir hafi sagst ætla að enda feril hans.

BBC, breska ríkisútvarpið, greinir frá því að réttað verði í málinu að nýju í febrúar. Þarf Maguire ekki að vera viðstaddur réttarhöldin. Upphaflega átti málið að fara fram síðar í júnímánuði en lögmenn leikmannsins óskuðu eftir því að það yrði frestað.


Tengdar fréttir

Maguire fundinn sekur í þremur ákæruliðum

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, var í dag fundinn sekur í þremur ákæruliðum eftir að hafa verið handtekinn á grísku eyjunni Mykonos þar sem hann var í fríi með fjölskyldu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×