Íslenski boltinn

„Má vel vera að þetta komi sér­fræðingunum eitt­hvað á ó­vart“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðni skaut létt á sérfræðinga eftir sigur kvöldsins.
Guðni skaut létt á sérfræðinga eftir sigur kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Nýliðar FH sigruðu Selfoss 2-0 á heimavelli í Bestu deild kvenna í fótbolta nú kvöld. Liðið hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum og situr í 5. sæti deildarinnar. Guðni Eiríksson, þjálfari FH, segir frammistöðuna í fyrri hálfleik hafa skilað liðinu þremur stigum í dag.

„Frábær fyrri hálfleikur lagði grunninn að þessum sigri. Liðið var vel undirbúið og var klárt á þessum grunnþáttum; baráttu, vilja og dugnaði“

Selfoss situr í neðsta sæti deildarinnar, hefur ekki tekist að halda marki sínu hreinu það sem af er móts og hefur nú tapað þremur leikjum í röð.

„Við mættum liði Selfossar, sem við vissum að væri sært, en ætlaði sér að taka þrjú stig á móti okkur nýliðunum. En þetta er Kaplakrikavöllur og það er erfitt að koma hingað.“

Eftir algjöra yfirburði í fyrri hálfleik leiddi FH leikinn 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. Selfyssingar komu út í seinni hálfleik af krafti og það virtist halla aðeins undan fæti hjá FH. Þá gerði þjálfarinn þrefalda breytingu á liði sínu.

„Það er ekki ástæðan fyrir þrefaldri breytingu [að liðið hafi byrjað seinni hálfleik illa], ef að leikir okkar eru skoðaðir sést að við gerum nánast alltaf fimm skiptingar. Við viljum nota og nýta mannskapinn, við spilum af mikilli ákefð eins og sást í fyrri hálfleik og vildum bara ferskar lappir inn á, það er ástæðan fyrir breytingunum. Þær sem fóru útaf stóðu sig vel.“

Stigasöfnun FH í upphafi móts hefur vakið athygli, þær eru nýliðar Bestu deildarinnar og var af flestum spáð falli fyrir tímabil.

En kemur það þjálfara liðsins á óvart hversu vel hefur gengið í upphafi móts?

„Nei alls ekki, það má vel vera að þetta komi sérfræðingunum eitthvað á óvart að sjá lélegasta lið deildarinnar vera að safna stigum en það kemur FH liðinu ekki á óvart, alls ekki“ sagði Guðni kokhraustur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×