Erlent

Stór dróna­á­rás á Kænu­garð í nótt

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Vítalí Klitskó borgarstjóri segir að einn hafi látist og ein kona slasast.
Vítalí Klitskó borgarstjóri segir að einn hafi látist og ein kona slasast. Getty

Rússar gerðu stóra drónaárás á höfuðborgina Kænugarð í nótt. Loftvarnarkerfi skaut hins vegar niður meirihlutann.

Alls sendu Rússar 54 sjálfstortímandi dróna til Úkraínu í nótt, þar af 40 á Kænugarð. Samkvæmt úkraínska flughernum voru 52 drónar skotnir niður. Árásin hófst laust eftir miðnætti og stóð yfir í fimm klukkutíma.

Vítalí Klitskó, borgarstjóri Kænugarðs, segir að einn hafi dáið í árásinni þegar brak úr dróna féll á bensínstöð. Þá slasaðist ein kona. Eldur kom upp í tveimur háhýsum í Kænugarði sem urðu fyrir drónabraki.

Kænugarðsdagurinn

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu, BBC, hafa Rússar beint árásum sínum í auknum mæli að Kænugarði á undanförnum vikum. Vonast þeir til þess að yfirbuga loftvarnarkerfi borgarinnar. Í dag halda íbúar upp á Kænugarðsdaginn, þar sem stofnun borgarinnar fyrir 1500 árum, verður fagnað.

Drónum var einnig beint að öðrum borgum. Meðal annars Holosivkí í suðurhluta landsins. Þar kviknaði í vöruhúsum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×