Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Breiðablik 1-2 | Meistararnir mörðu nýliðana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Breiðablik kreisti fram sigur í kvöld.
Breiðablik kreisti fram sigur í kvöld. vísir/hulda margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks þurftu að hafa fyrir hlutunum er liðið heimsótti nýliða Fylkis í Bestu-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur 2-1, Breiðablik í vil, og óhætt að tala um torsóttan sigur gestanna.

Það var nokkur ró yfir leiknum á upphafsmínútunum og liðunum gekk illa að skapa sér færi. Gestirnir frá Kópavogi voru þó heldur meira með boltann, en Fylkismenn stóðu vaktina í vörninni vel.

Ólafur Karl Finsen átti fyrsta færi leiksins þegar hann gerði vel í að taka á móti boltanum inni á vítateig á 26. mínútu, sneri og lét vaða. Skot hans var hins vegar tiltölulega beint á markið og Anton Ari Einarsson var vandanum vaxinn í marki Blika.

Strax í næstu sókn fengu Blikar loksins sitt fyrsta færi í leiknum þegar Jason Daði Svanþórsson fékk boltann úti á hægri kanti og gaf boltann fyrir. Þar fann hann Klæmint Olsen sem þurfti ekki að gera annað en að reka tána í boltann og staðan var orðin 0-1.

Heimamenn voru þó ekki lengi að svara því aðeins fjórum mínútum eftir að Blikar tóku forystuna tókst Ólafi Karli Finsen að reka höfuðið í hornspyrnu frá Óskari Borgþórssyni og jafnaði metin í 1-1.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, tók svo áhugaverða ákvörðun á 38. mínútu þegar hann tók markaskorarann Ólaf Karl af velli, en það kom þó ekki að sök fyrir hálfleikshléið og staðan var 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Fylkismenn voru svo óheppnir að taka ekki forystuna strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Viktor Örn Margeirsson gerðist sekur um slæm mistök í vörn Breiðabliks og allt í einu var Þórður Gunnar Hafþórsson sloppin einn í gegn. Þórður setti boltann hins vegar fram hjá markinu og gestirnir sluppu því með skrekkinn.

Síðari hálfleikur var svo að miklu leyti keimlíkur þeim fyrri þar sem Blikarnir héldu boltanum, en Fylkismenn vörðust vel. Gestirnir áttu þó í nokkrum vandræðum með að finna glufur á varnarleik heimamanna.

Eftir því sem leið á fóru gestirnir þó að finna leiðir á bak við vörn Fylkismanna og á 76. mínútu var Jason Daði Svanþórsson nálægt því að koma gestunum yfir á ný þegar hann setti boltann í stöngina úr þröngu færi.

Það var svo ekki fyrr en að tæpar fimm mínútur voru til leiksloka að Blikar fundu loksins sigurmarkið þegar Damir Muminovic virtist skalla hornspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar í netið, en þegar markið er skoðað er mögulega hægt að færa rök fyrir því að boltinn hafi farið af Nikulási Val Gunnarssyni og inn.

Af hverju vann Breiðablik?

Það er líklega ekki hægt að segja að Íslandsmeistararnir hafi verið mun betri aðilinn í kvöld. Blikar héldu boltanum ágætlega, en áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér færi. Í raun áttu Fylkismenn líklega skilið að taka eitt stig úr þessum leik, en gestirnir náðu að troða inn einu marki undir lokin.

Hverjir stóðu upp úr?

Ragnar Bragi Sveinsson átti flottan leik á miðsvæðinu hjá Fylki og fyrirliðinn stýrði sínum mönnum vel þegar Fylkismenn þurftu að verjast. Þá átti fyrirliði gestanna, Höskuldur Gunnlaugsson, einnig fínan dag, en hann tók hornspyrnuna sem skapaði sigurmarkið.

Hvað gekk illa?

Eins og hefur komið fram hér áður þá áttu Blikar í miklum vandræðum með að skapa sér færi og Íslandsmeistararnir ganga líklega hundfúlir frá þessum leik þrátt fyrir stigin þrjú.

Hvað gerist næst?

Breiðablik heimsækir KR næstkomandi laugardag klukkan 16:00 og Fylkir tekur á móti Fram degi síðar klukkan 19:15.

Rúnar Páll: Mikil vinna lögð í þetta og það skapar góða frammistöðu

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er bara hundfúlt. Við vorum búnir að spila þennan leik frábærlega. Varnarvinnan var upp á tíu og það var því mjög svekkjandi að fá á okkur mark hérna eftir hornspyrnu. Það var mjög fúlt. Á einmitt svæði þar sem við erum með stóra og hávaxna menn. Það var bara glatað að fá þetta mark á sig,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, eftir leik.

Hann segir þó hafa séð ýmislegt jákvætt í leik sinna manna.

„Við getum byggt ofan á þessu og meiri hluti leikjanna hefur verið fín frammistaða, en höfum samt ekki fengið mikið fyrir það. En við höldum bara ótrauðir áfram og reynum að byggja á þessu.“

„Við vorum að skapa fínar sóknir og fína möguleika. En eins og þú segir þá fengu Blikarnir ekki marga möguleika eða opin færi. Það var aðallega eftir hornspyrnurnar sem þeir náðu að þrýsta á okkur. Annars fengu þeir engar opnanir og við gerðum þetta hrikalega vel. Ég er í sjálfu sér bara stoltur af drengjunum því það er mikil vinna lögð í þetta og það er það sem skapar góða frammistöðu. Við þurfum bara að halda áfram og við tökum Fram á mánudaginn.“

Þá vakti athygli að Ólafur Karl Finsen var tekinn af velli fyrir hálfleikshléið, en hann hafði skorað mark Fylkis stuttu áður.

„Hann fékk eitthvað smá tak í lærið þannig við þorðum ekki að láta hann halda áfram.“

„Óli er bara í fantaformi og er góður fyrir okkur, þannig að vonandi verður hann bara heill fyrir næsta leik. Það er nú ástæðan fyrir því að við tókum hann út af. Við vildum ekki að hann færi í einhver alvarleg meiðsli,“ sagði Rúnar að lokum.

Höskuldur: Við komumst upp með þetta

Höskuldur Gunnlaugsson lagði upp sigurmark Blika í kvöld.Vísir/ Hulda Margrét

„Við tökum sigrinum að sjálfsögðu fagnandi og fínt að komast á smá „run“ í stigasöfnun og tengja saman sigurleiki. En það sem við rýnum oftast í; frammistöðuna og hvernig við upplifum leikina burtséð frá hvernig þeir enda, þá var þetta ekki nógu gott og ekki á þeim standard sem við viljum vera,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, leikmaður Breiðabliks, eftir leikinn.

„Við vorum ekki „sharp,“ við vorum að láta boltann ganga hægt og vorum ekki að taka kröftug hlaup, hvorki sóknarlega né varnarlega. Þetta var svolítið flatt.“

Þá tekur Höskuldur undir það að hann og hans lið hafi ekki náð að skapa sér mikið af færum í kvöld og að Blikar hafi verið ólíkir sjálfum sér.

„Já við vorum það. Ég ætla ekkert að taka neitt af Fylkismönnum því þeir voru helvíti skipilagðir og gerðu okkur erfitt fyrir og vörðust vel, en ef við pælum bara í okkur þá vorum við bara að ná að hreyfa þá lítið. Sömuleiðis vorum við að hreyfa boltann hægt og vorum því ekkert að teygja á þeim eða finna opnanir.“

„Við komumst upp með þetta með því að vinna, en þetta var alls ekki nógu vel spilað.“

Höskuldur segist hins vegar ekki hafa svör við því af hverju Blikar hafi hikstað svona mikið í upphafi móts.

„Ég veit það ekki. Það getur bara gerst. Ef ég væri með svarið þá værum við kannski búnir að laga það, en heilt yfir finnst mér við vera að finna okkar gömlu prinsipp ef við tökum þennan leik út fyrir sviga. Við höfum verið með miklu meiri kraft í undanförnum leikjum finnst mér þó Framleikurinn hafi vissulega verið svolítið fram og til baka. Þar kannski sýndum við okkar bestu hliðar og þær verstu, en þar var allavega „spirit“ og baráttugleði til staðar. Svo áttum við flottan leik á móti Stjörnunni næstum allan leikinn.“

„Þannig að þetta var kannski smá skref aftur á bak í kvöld, en þá er samt alveg sterkt að taka sigurinn og ég ætla alls ekki að fara að tala þannig að við séum orðnir of góðir til að taka ekki sigri á útivelli. Við tökum því alltaf.“

Þá tekur Höskuldur fyrir það að Breiðablik sé að láta það trufla sig að í gegnum tíðina hafi reynst liðum erfitt að verja Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég held nú ekki. Það er eflaust einhver tölfræði á bak við það, en mér finnst við vera komnir yfir það að vera eitthvað að pæla í því. Það var örugglega einhver smá titringur í upphafi móts, en það er bara langt liðið inn í nýtt mót og það langt frá því að hitt var þannig að það partý er löngu búið og þetta er bara hörkukeppni sem við ætlum að taka þátt í.“

„Þannig að mér finnst það vera komið í baksýnisspegilinn og við erum að reyna að einbeita okkur í þessu móti, sem er hörkumót,“ sagði Höskuldur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira