Erlent

„En okkur líkar við flugvélarnar ykkar“

Samúel Karl Ólason og Heimir Már Pétursson skrifa
Frá Helsinki í dag.
Frá Helsinki í dag. Vísir/Einar

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, stakk óvænt upp kollinum í Helsinki í Finnlandi í dag þar sem hann fundaði með leiðtogum Norðurlanda. Honum var heitið auknum stuðningi frá Norðurlöndum en enn sem áður þrýsta Úkraínumenn á að fá herþotur frá Vesturlöndum.

Selenskí ítrekaði það á blaðamannafundi í dag þar sem hann grínaðist með að þó Finnar væru ekki með F-16 herþotur og þess í stað gamlar F/A-18 Hornet herþotur, þá væru Úkraínumenn hrifnir af þeim.

Hann gerði það sama þegar Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var spurð hvort Danir gætu mögulega sent herþotur til Úkraínu.

Selenskí þvertók einnig fyrir að Úkraínumenn hefðu reynt að myrða Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í gær.

Sjá einnig: „Við réðumst ekki á Pútín eða Moskvu“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði með Selenskí í dag, og eftir það sagði hún að Íslendingar myndu auka framlag sitt til Úkraínu á þessu ári.

Sjá einnig: Ætla að kynna aukið framlag til Úkraínu fyrir leiðtogafundinn

Hún sagði einnig að óljóst væri hvort Selenskí myndi mæta til Íslands á leiðtogafund Evrópuráðsins sem fer hér fram 16. og 17. maí.

Í spilaranum hér að neðan má sjá ítarlega frétt Stöðvar 2 um vendingar dagsins í Helsinki.

Selenskí fór í dag frá Finnlandi til Hollands, þar sem hann mun hitta Mark Rutter, forsætisráðherra, og halda ræðu Í Haag. Sú ræða er sögð bera titilinn „Enginn friður án réttlætis í Úkraínu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×