Veður

Á­fram mikil úr­koma austan­til og hiti að tíu stigum

Atli Ísleifsson skrifar
Það snýst í suðvestanstrekking með skúrum eða sluddéljum á morgun, en rignir áfram á Austfjörðum fram að hádegi að minnsta kosti.
Það snýst í suðvestanstrekking með skúrum eða sluddéljum á morgun, en rignir áfram á Austfjörðum fram að hádegi að minnsta kosti. Vísir/Vilhelm

Áfram má reikna með austlægri átt og talsverðri eða mikilli úrkomu á austanverðu landinu framan af morgni. Yfirleitt verður rigning, en slydda eða snjókoma á norðanverðum Austfjörðum.

Appelsínugular og gular viðvaranir vegna asahláku og snjókomu eru í gildi á Austfjörðum og fylgjast sérfræðingar og viðbragðsliðar því náið með ástandi snjóalaga þar. Óvissustig vegna snjóflóða- og krapaflóðahættu er í gildi á Austfjörðum og mörg hús hafa verið rýmd.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði þurrt að mestu á Norðurlandi, en dálítil væta með köflum í öðrum landshlutum. Hiti verður víða fimm til tíu stig.

„Snýst í suðvestanstrekking með skúrum eða sluddéljum á morgun, en rignir áfram á Austfjörðum fram að hádegi að minnsta kosti. Léttir smám saman til á Norður- og Austurlandi og kólnar í veðri. Dregur síðan enn úr vindi og úrkomu á sunnudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðlæg átt, 8-15 m/s og skúrir eða slydduél, hvassast við suðvesturströndina, en rigning eða slydda á Suðausturlandi og Austfjörðum fram eftir degi. Hiti 0 til 7 stig, svalast inn til landsins.

Á sunnudag: Suðvestan 8-13 m/s og skúrir eða él, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hægari og úrkomuminni síðdegis, en fer að rigna suðaustanlands seint um kvöldið. Hiti nærri frostmarki.

Á mánudag: Gengur í hvassa austan- og suðaustanátt með talsverðri rigningu, en sums staðar slyddu eða snjókomu fyrir norðan. Hlýnandi veður.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Suðlæg eða breytileg átt og víða skúrir eða él, en yfirleitt þurrt norðaustanlands. Kólnar aftur í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×