Að minnsta kosti einn maður lést í árásinni og tuttugu og fimm særðust. Þeirra á meðal eru tvö börn að sögn borgarstjóra. Gífurleg eyðilegging varð á húsinu.
Borgin er um 100 kílómetra frá Zaporizhzhia kjarnorkuverinu sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir að sé tifandi tímasprengja vegna tíðra stórskotaliðs- og eldflaugaárása í nágrenninu.
Rússar hafa þrætt fyrir að þeir ráðist á íbúðabyggð þótt fallbyssuskot og eldflaugar þeirra hafni á íbúðarhúsum á hverjum degi. Þeir segja flugskeytið í dag hafa verið frá loftvarnakerfi Úkraínumanna.

Volodymyr Zelenski forseti Úkraínu heimsótti vígstöðvarnar í Donetsk í austurhéruðum landsins í dag og heiðraði særða hermenn eftir átökin um borgina Bakhmut. Hann heimsótti einnig herspítala í Donetsk þar sem hann heiðraði einnig hermenn og þakkaði hjúkrunarliði fyrir þeirra störf.
„Mig langar að þakka ykkur fagmennsku ykkar og vinnu. Þar til við sigrum þurfum við að bjarga lífi þeirra sem verja landið. Þið verjið landamæri landsins. Ég óska ykkur góðrar heilsu og bið ykkur að skila bestu kveðjum til strákanna og stelpnanna á landamærunum," sagði Zelensky.