Enski boltinn

„Home Alone“ hjálpaði Greal­ish eftir von­brigðin á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Grealish mætti ferskur til Manchester City eftir New York ferð.
Jack Grealish mætti ferskur til Manchester City eftir New York ferð. Getty/Tom Flathers

Enski landsliðsmaðurinn Jack Grealish sagði að skemmtiferð til New York og bandarísk jólamynd hafi hjálpað honum að vinna út úr vonbrigðunum á HM í Katar í desember.

Enska landsliðið hafði tapaði í úrslitaleik Evrópumótsins árið áður en datt nú út í átta liða úrslitum á móti Frakklandi.

Grealish og félagar í enska landsliðinu spila sinn fyrsta leik eftir HM þegar liðið mætir Ítölum á morgun í undankeppni EM.

Enska landsliðið tapaði á móti Frökkum 10. desember og miðjumaður Manchester City fékk tíu daga til að jafna sig áður en hann snéri aftur í vinnuna hjá City.

Uppáhalds jólamyndin kom þarna sterk inn. „Ég er með ávanabindandi persónuleika. Konan segir alltaf við mig að ef mér líkar við lag þá held ég áfram að spila það aftur og aftur,“ sagði Jack Grealish á blaðamannafundi enska landsliðsins.

„Ég elska kvikmyndina Home Alone og hef horft svo oft á hana. Á hverjum jólum,“ sagði Grealish. Hann gisti í skemmtiferð sinni til New York á Plaza hótelinu sem er aðalvettvangur Home Alone 2.

„Ég elskaði að horfa á hana og ég elska jólin. Móðir mín gerði jólin alltaf svo sérstök fyrir mig þegar ég var að alast upp. Ég vildi alltaf fá að vera í New York í kringum jólin en vegna fótboltans þá hafði ég aldrei áður náð því,“ sagði Grealish.

„Það var á draumalistanum (bucket-list) mínum og ég náði að upplifa það þarna. Ég mætti siðan á æfingu á miðvikudeginum og við spiluðum svo við Liverpool í deildabikarnum á fimmtudeginum,“ sagði Grealish.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.