Veður

Hvassir austan­vindar og snjó­koma með köflum syðst

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn og aðrir vegfarandur eru beðnir um að kynna sér vel veðurspá og færð áður en lagt er af stað.
Ferðamenn og aðrir vegfarandur eru beðnir um að kynna sér vel veðurspá og færð áður en lagt er af stað. Vísir/Vilhelm

Allmikið og alldjúpt lægðasvæði er suður af landinu og veldur hvössum austanvindum, jafnvel stormi eða roki syðst. Snjókoma með köflum eða skafrenningur á sunnanverðu landinu og því getur færðin spillst með skömmum fyrirvara.

Á vef Veðurstofunnar segir að það séu dálítil él í öðrum landshlutum, en yfirleitt úrkomulaust á Vesturlandi og dragi úr frostinu.

Gular veðurviðvaranir vegna vinds og hríðar eru í gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi og Miðhálendi, sem og á Vestfjörðum, og eru ferðamenn og aðrir vegfarandur beðnir um að kynna sér vel veðurspá og færð áður en lagt er af stað.

„Fer að rofa til syðra í kvöld, en áfram hvassviðri eða stormur syðst í nótt og fram á morgundaginn. Norðaustankaldi eða -strekkingur og víða dálítil él seinnipartinn á morgun, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Áfram frost víða á landinu og ekki útlit fyrir neinum hlýindum á næstunni,“ segir á vef Veðurstofunnar

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðaustan 13-18 m/s, en 18-25 við suðausturströndina. Dálítil él á austanverðu landinu og með norðurströndinni, en annars yfirleitt léttskýjað. Dregur smám saman úr vindi síðdegis. Frost víða 2 til 7 stig, en frostlaust syðst.

Á fimmtudag: Norðaustan 8-15 m/s og dálítil él, en bjartviðri sunnan- og vestantil. Frost 0 til 8 stig að deginum, minnst syðra.

Á föstudag: Norðaustankaldi og smá él, einkum með norðurströndinni, en lengst af léttskýjað syðra. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag, sunnudag og mánudag: Norðaustlæg eða breytileg átt og líkur á snjókomu eða éljum í flestum landshlutum. Áfram kalt í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×