Framherjinn Haley Berg kemur til Vals eftir að hafa spilað með FC Nordsjælland í Danmörku fyrir áramót.
Það verður seint sagt að hún hafi verið iðinn við kolann í Danaveldi en hin 24 ára gamla Berg komst ekki á blað í þeim 9 leikjum sem hún lék fyrir Nordsjælland. Þar áður lék hún með Houston Das í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum.
Unglingalandsliðskonan Ísabella Sara hefur einnig samið við Íslands- og bikarmeistarana. Hún kemur frá nágrönnunum í KR sem munu leika í Lengjudeildinni eftir að hafa fallið síðasta sumar.
Ísabella Sara, sem er fædd árið 2006, spilaði 16 leiki með KR á síðustu leiktíð og skoraði í þeim tvö mörk. Hún á að baki 22 leiki fyrir U-16 og U-17 ára landslið Íslands. Í þeim hefur hún skorað 8 mörk.
Besta deild kvenna hefst á stórleik þann 25. apríl næstkomandi þegar Valur fær Breiðablik í heimsókn á Hlíðarenda.