Enski boltinn

Manchester United hækkar miðaverð í fyrsta sinn í ellefu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er aftur gaman að vera stuðningsmaður Manchester United eftir erfið ár.
Það er aftur gaman að vera stuðningsmaður Manchester United eftir erfið ár. Getty/Alex Livesey

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United hefur ákveðið að hækka miðaverð á leiki liðsins á Old Trafford um fimm prósent.

Félagið tilkynnti um þessa hækkun í gær en verðið hefur verið óbreytt í ellefu ár.

Kostnaður við að halda leiki á Old Trafford hefur hækkað um fjörutíu prósent á síðustu fimm árum þar af um ellefu prósent á síðustu tólf mánuðum samkvæmt upplýsingum frá Manchester United.

Í yfirlýsingu Unied segir að þessi hækkun sé nauðsynleg til að þetta geti borið sig en verðin hafi verið langt fyrir neðan verðbólgu og þar kemur fram að miðaverð og verð veitinga á Old Trafford munu halda áfram að vera með því lægsta í ensku úrvalsdeildinni.

Það hefur verið mikil uppgangur hjá liði Manchester United síðustu mánuði og Hollendingnum Erik ten Hag virðist vera að takast það á örskömmum tíma að koma félaginu aftur í hóp bestu liða ensku úrvalsdeildarinnar.

Ólíklegt er því að þessi hækkun muni því hafa stór áhrif á eftirspurnina eftir þessum miðum.

Glazer-fjölskyldan sem á Manchester United er sögð vera að kanna möguleikann á því að selja félagið og hefur fengið tvö tilboð í félagið frá milljarðamæringnum Jim Ratcliffe og Sheikh Jassim Bin Hamad Al Than frá Katar.

Það er líka orðrómur uppi að Glazer-bræðurnir vilji frekar fá fjárfesta inn í stað þess að láta félagið frá sér en það er þó ósk flestra stuðningsmanna Manchester United að félagið verið Glazer-laust sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×