Erlent

Ýmsir kostir við njósna­belgi en vont að vera nappaður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarískar herþotur skutu loftbelginn niður.
Bandarískar herþotur skutu loftbelginn niður. Chad Fish via AP

Þrátt fyrir að tæknin sé ef til vill gamaldags geta stórþjóðir hagnýtt sér ýmsa kosti loftbelgja til að njósna um keppinauta sína á alþjóðavettvangi. Gallinn er þó sá að það getur verið vont ef upp kemst um njósnabelgina, þar sem ekki sé ólíklegt að það gerist fyrir augum almennings, eins og gerðist yfir Bandaríkjunum á dögunum.

„Þetta sýnist mér einfaldlega vera hluti af víðtæku njósnaprógrammi,“ sagði Friðrik Jónsson, formaður BHM og sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum beðinn um að gefa álit á fljúgandi hlutum sem skotnir hafa verið yfir Bandaríkjunum- og Kanada síðustu daga.

Einhverjar þjóðar?

„Einhverjar þjóðar, langlíklegast að það sé Kína. Við vitum það náttúrulega að fyrsti loftbelgurinn sem þarna var skotinn niður, hann var frá Kína. Það er búið að finna og ná í leifarnar af honum,“ sagði Friðrik í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Fregnir af fyrsta loftbelgnum vöktu mikla athygli er hann sveif yfir Bandaríkjunum í mikilli hæð. Loftbelgurinn var að lokum skotinn niður í Atlantshafið fyrir tíu dögum síðan. Atvikið hefur skapað nokkurra spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína.

Ekkert nýtt að stórþjóðir njósni um hvora aðra

Fulltrúar bandarískra yfirvalda segja að belgurinn, sem gefur svifið um í mjög hárri hæð, hafi átt upptök sín í Kína og hafi verið notað til njósna, en kínversk stjórnvöld segja að um hafi verið að ræða belg til veðurathugana sem hafi svifið af leið.

„Þetta er allt saman mjög dramatískt en þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt að þessar þjóðir, stórþjóðir, séu að njósna um hvora aðra með ýmsum hætti, er bara búið að vera partur af prógramminnu í nokkur þúsund ár,“ sagði Friðrik. Tilkynnt var í gær að búið væri að hafa upp á skynjurum loftbelgsins umdeilda, sem gæti gefið nánari skýringar á tilgangi hans.

Frá því að belgurinn var skotinn niður þann fjórða þessa mánaðar hafa bandarískar herþotur skotið niður þrjá grunsamlega „hluti“ til viðbótar á jafnmörgum dögum. Einn var skotinn niður yfir Alaska, einn yfir Yukon í norðurhluta Kanada og einn yfir Huron-vatn á landamærum Bandaríkjanna og Kanada. 

„Það eru svona skrýtnari lýsingar. En þegar verður búið að finna leifarnar af því líka þá vonandi skýrist eitthvað. Eða ekki vegna þess að það eru náttúrulega ekkert ólíklegt að menn vilji halda einhverri leynd yfir því sem verið er að finna.“

Vont að vera nappaður

Greint hefur verið frá því að umræddir þrír hlutir hafi ekki verið að senda frá sér nein merki, hafi ekki haft neinar lífverur innanborðs og að þau hafi verið knúin áfram af vindafli. fremur en vélarafli. Voru þau á flugi í um tuttugu til fjörutíu þúsund feta hæð, og þar með talin ógna flugöryggi. Þriðji hluturinn hefur vakið hvað mesta athygli. Honum hefur verið lýst sem áttstrendingi með hangandi strengjum.

Eru þetta allt loftbelgir?

„Nú bara vitum við það ekki. Nú eru lýsingarnar á þessum seinni hlutum að menn hafi ekkert endilega verið að sjá belgi halda þeim á lofti þannig að þá velta menn því fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar helíum-loftför eða hvað þetta er. Þannig að þetta er mjög dularfullt og mjög spennandi,“ sagði Friðrik en bætti þó við að langlíklegasta skýringin væru nokkuð einföld.

Fyrsti loftbelgurinn sem var skotinn niðurAnna Griffin/Missourian via AP

„En grunnurinn í þessu er náttúrulega það að hérna eru bara þessar stórþjóðir að njósna um hvora aðra. Beita til þess breiðri tækni. Sum part sem að þætti gamaldags. Að nota belgi, er það ekki svolítið gamaldags? En þá kemur í ljós að þetta er eitthvað sem flýtur hægt og rólega. Þú ert með nema sem taka upp alls konar og einmitt hefur verið erfitt að finna eða sjá þannig að þeir komast lengra eða víðar,“ sagði Friðrik.

Þó væri sá galli á þessari aðferðarfræði ef að kæmist upp um þessar njósnatilraunir með loftbelgjum, gæti það verið mjög sýnilegt almenningi, ólíkt öðrum leynilegri njósnaaðferðum.

„Ef að þú ert nappaður þá er það eins og við erum að sjá núna yfirleitt í almannasýn. Þá neyðistu til að bregðast við.

Það er ókostur við að það getur farið úr böndunum. Að það skapist ákveðið uppnám sem er kannski ekki alveg í samræmi við tilefnið. Það geti farið úr böndunum. Það verði svona bringubarningur sem leiðir til þess að það verður brugðist allt of hart við,“ sagði Friðrik.

Búið að gera ratsjárkerfið næmara

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa einnig greint frá því að eftir atvikið með fyrsta loftbelginn sé búið að endurstilla ratsjárkerfi ríkisins þannig að þau sé næmari. Þannig nemi ratsjárnar nú fjölda merkja sem áður hafi einfaldlega verið síuð út og enginn gaumur gefinn. Ekki er ólíklegt að þetta skýri af hverju hlutirnir þrír, sem skotnir voru niður, á eftir loftbelgnum hafi fundist.

„Það sem virðist vera er að stilling eða kalibíring á ratsjám eða annað, til þess að nema þessa belgi, hefur bara ekki verið þess eðlis að þeir væru að pikka þetta upp,“ sagði Frirðik.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×