Recep Tayip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst yfir þriggja mánaða neyðarástandi í tíu borgum landsins. Meðal þeirra er borgin Iskenderun. Höfn borgarinnar hefur staðið í ljósum logum frá því í gær en eldurinn er talinn eiga upptök sín í gámum sem færðust til.
Landsbjörg ákvað í dag að senda níu manna teymi sérfræðinga til að aðstoða við björgunarstarf. Upphaflega stóð til að fljúga með TF-SIF, flugvél landhelgisgæslunnar, en vegna veðurs var ákveðið að fljúga með Boeing 737-MAX farþegaþotu Icelandair. Flogið verður frá Keflavík til Tyrklands í kvöld.
Gisti í skóla í nótt
Eygló Guðmundsdóttir er búsett í Gaziantep í suðurhluta Tyrklands, þar sem neyðarástandi hefur verið lýst yfir. Hún varði nóttinni í skólabyggingu í borginni, en hún býr á sjöttu hæð í fjölbýlishúsi. Hún segir fólk bíða þess að stjórnvöld greini frá því hvort enn sé hætta á stórum skjálftum.
„Þá er eftir að skoða hvenær við fáum að fara heim,“ segir Eygló í samtali við fréttastofu.
Aðgengi að vatni og rafmagni á svæðinu sé ekki gott.
„Hér til dæmis eru örfá tengi sem virka. Nú er verið að ná í gas. Og með salernin, þú veist, það er ekkert vatn.“

Fólk sé allt af vilja gert til að hjálpa hvort öðru, bæði Tyrkjum jafnt sem útlendingum.
„En í mörgum öðrum löndum er ekki svona mikill velvilji þegar kemur að því að taka á móti útlendingum. Hér er búið að taka svoleiðis utan um mig. Ég er vön að bjarga mér, en það er ekki spurning, fólk er yndislegt.“