Erlent

Sam­staða borgar­búa sé ó­trú­leg

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gaziantep er ein þeirra borga í Tyrklandi þar sem þriggja mánaða neyðarástandi hefur verið lýst yfir.
Gaziantep er ein þeirra borga í Tyrklandi þar sem þriggja mánaða neyðarástandi hefur verið lýst yfir. AP/Mustafa Karali

Þúsundir hafa farist eftir öfluga jarðskjálfta í Tyrklandi og Sýrlandi í gær. Íslenskt björgunarsveitarfólk fer til Tyrklands til að aðstoða við björgunaraðgerðir. Samstaða íbúa Tyrklands er aðdáunarverð að mati íslenskrar konur sem býr á skjálftasvæðinu. 

Recep Tayip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst yfir þriggja mánaða neyðarástandi í tíu borgum landsins. Meðal þeirra er borgin Iskenderun. Höfn borgarinnar hefur staðið í ljósum logum frá því í gær en eldurinn er talinn eiga upptök sín í gámum sem færðust til.

Landsbjörg ákvað í dag að senda níu manna teymi sérfræðinga til að aðstoða við björgunarstarf. Upphaflega stóð til að fljúga með TF-SIF, flugvél landhelgisgæslunnar, en vegna veðurs var ákveðið að fljúga með Boeing 737-MAX farþegaþotu Icelandair. Flogið verður frá Keflavík til Tyrklands í kvöld.

Gisti í skóla í nótt

Eygló Guðmundsdóttir er búsett í Gaziantep í suðurhluta Tyrklands, þar sem neyðarástandi hefur verið lýst yfir. Hún varði nóttinni í skólabyggingu í borginni, en hún býr á sjöttu hæð í fjölbýlishúsi. Hún segir fólk bíða þess að stjórnvöld greini frá því hvort enn sé hætta á stórum skjálftum.

„Þá er eftir að skoða hvenær við fáum að fara heim,“ segir Eygló í samtali við fréttastofu.

Aðgengi að vatni og rafmagni á svæðinu sé ekki gott.

„Hér til dæmis eru örfá tengi sem virka. Nú er verið að ná í gas. Og með salernin, þú veist, það er ekkert vatn.“

Eygló Guðmundsdóttir er búsett í Gaziantep. Hún segir samstöðu fólksins í borginni ótrúlega.Aðsend

Fólk sé allt af vilja gert til að hjálpa hvort öðru, bæði Tyrkjum jafnt sem útlendingum.

„En í mörgum öðrum löndum er ekki svona mikill velvilji þegar kemur að því að taka á móti útlendingum. Hér er búið að taka svoleiðis utan um mig. Ég er vön að bjarga mér, en það er ekki spurning, fólk er yndislegt.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×