Gular viðvaranir taka gildi víðsvegar um landið í nótt og á morgun. Fyrstu viðvaranirnar taka gildi klukkan eitt í nótt á Breiðafirði og á Suðurlandi en búist er við mikilli rigningu þar. Einnig má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum.
Um morguninn taka gular viðvaranir vegna vinds síðan gildi á miðhálendinu, Austfjörðum, Austurlandi að Glettingi, Norðurlandi eystra, Ströndum og Vestfjörðum.
Vindhraði verður á bilinu 18 til 25 metrar á sekúndum og gæti náð allt að 35 metrum á sekúndu í vindhviðum við fjöll. Fólk á svæðinu er hvatt til þess að sýna aðgát á morgun.
Í ábendingum frá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi Vegagerðarinnar, segir að með á norðanverðu Snæfellsnesi og í Ísafjarðardjúpi verði snarpir og varasamir sviptivindar frá um klukkan 9. Sama á við um Norðurland upp úr klukkan 11, einkum vestantil í Eyjafirði norðan Akureyrar og Tröllaskaga.
Fréttin hefur verið uppfærð.