Enski boltinn

Greenwood laus allra mála

Sindri Sverrisson skrifar
Mason Greenwood er uppalinn leikmaður Manchester United og var talinn vonarstjarna hjá liðinu og enska landsliðinu.
Mason Greenwood er uppalinn leikmaður Manchester United og var talinn vonarstjarna hjá liðinu og enska landsliðinu. Getty/Marc Atkins

Allar ákærur á hendur Mason Greenwood hafa verið felldar niður, rúmu ári eftir að þessi 21 árs gamli leikmaður Manchester United var handtekinn grunaður um nauðgunartilraun, líkamsárás og þvingunartilburði.

Í nóvember síðastliðnum var tilkynnt að Greenwood þyrfti að mæta fyrir rétt í nóvember á þessu ári, en nú hefur málið verið fellt niður.

The Sun hefur eftir talsmanni saksóknara að lykilvitni hafi dregið sig til baka og að ný sönnunargögn hafi komið fram. Hann sagði:

„Það er okkar skylda að endurskoða mál stöðugt. Í þessu tilviki var ekki lengur raunhæft útlit fyrir sakfellingu eftir að lykilvitni hætti við og ný gögn komu fram.

Þegar þannig ber undir ber okkur skylda til að hætta með mál. Við höfum útskýrt þá ákvörðun fyrir öllum hlutaðeigandi.“

Greenwood var ákærður grunaður um brot gegn konu á tímabilinu frá 1. nóvember 2018 til 15. október 2022. Hann var meðal annars sakaður um tilraun til nauðgunar 21. október 2021 og fyrir líkamsárás 12. desember og 31. desember 2021.

Greenwood var hnepptur í varðhald eftir ákæru 15. október á síðasta ári. Honum var sleppt gegn því skilyrði að vera ekki í sambandi við nein vitni, þar á meðal konuna sem hin meintu brot beindust gegn, og að hann héldi til á sínu heimili í Bowdon.

Konan, sem var kærasta Greenwoods, birti snemma árs í fyrra myndbönd og hljóðbrot á Instagram-síðu sinni með yfirskriftinni: „Til þeirra sem vilja vita hvað Mason Greenwood gerir í alvörunni við mig.“

Myndirnar sýndu marbletti á ýmsum stöðum sem og konuna með sprungna vör. Hljóðbrotið sem hún birti var sagt vera af atviki þar sem Greenwood hefði þvingað hana til samræðis.

Hann var í kjölfarið tekinn út úr liði Manchester United og bannaður frá æfingum, fjarlægður úr FIFA 22 og Football Manager 2022 tölvuleikjunum, og missti samning sinn hjá Nike.

Greenwood er uppalinn hjá United og þótti vonarstjarna hjá liðinu og enska landsliðinu. Hann spilaði síðast fyrir United í janúar á síðasta ári.

Þegar þetta er skrifað er beðið eftir viðbrögðum frá Manchester United við tíðindunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.