Erlent

Úkraínumenn fikri sig nær endurheimt lykilborga í Luhansk

Ólafur Björn Sverrisson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Úkraínskir hermenn búa sig undir frekari sókn á svæðinu í kringum Kreminna og Svavote í Luhansk héraði.
Úkraínskir hermenn búa sig undir frekari sókn á svæðinu í kringum Kreminna og Svavote í Luhansk héraði. getty

Margt bendir til þess að Úkraínumenn séu nú að fikra sig nær því að endurheimta Kreminna, lykilborg í Luhansk héraði, sem gæti opnað möguleika á frekari sókn. Harðir bardagar halda áfram bæði í austur- og suðurhluta Úkraínu.

Héraðsstjóri Luhansk segir að rússneskir hermenn, í þeim hluta sem Rússar stjórna, hafi neyðst til að hörfa til Rubizhne sem er bær í um fjórtán kílómetra fjarlægð í suðausturátt.

„Rússar vita að ef þeir missa Kreminna mun öll varnarlína þeirra falla,“ skrifaði héraðsstjórinn á Telegram.

Guardian segir frá en ritstjórn segist þó ekki geta staðfest sjálfstætt þessa þróun á vígvellinum.

Með endurheimt Kreminna gæti opnast möguleiki á því að blása til sóknar í borgunum Sieverodonetsk og Lysychansk, borgir sem Úkraínumenn misstu í hendur Rússa í sumar. 

Á mánudag lýsti Sergei Lavrov því yfir að Úkraínumenn verði að beygja sig undir skilyrði Rússa um að láta af hernaði og „nasískum stjórnarháttum“, eða tapa á vígvellinum. Yfirlýsing Lavrov bendir til þess að Rússar hafi ekki í hyggju að breyta um nálgun í stríðinu, þrátt fyrir yfirlýsingu Pútíns Rússlandsforseta um að Rússar væru reiðubúnir til samningsviðræðna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×