Enski boltinn

Ánægður að sjá Wenger: „Vonandi kemur hann oftar“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arteta segir nærveru Wengers þýðingarmikla.
Arteta segir nærveru Wengers þýðingarmikla. Dan Mullan/Getty Images

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var að vonum ánægður eftir 3-1 sigur liðs hans á West Ham í fyrsta deildarleik liðanna eftir HM-pásu í gær. Fyrrum stjóri hans hjá félaginu var í stúkunni.

Arséne Wenger sneri aftur á Emirates-völlinn í gær, í fyrsta skipti frá árinu 2018. Hann sá Bukayo Saka, Gabriel Martinelli og Eddie Nketiah skora þrjú mörk Arsenal í síðari hálfleik eftir að West Ham hafði leitt 1-0 í hléi.

Wenger stýrði Arsenal í 22 ár, frá 1996 til 2018, en á þeim tíma varð Arsenal þrisvar Englandsmeistari og sjö sinnum bikarmeistari.

Enski meistaratitillinn hefur ekki unnist síðan árið 2004 en Lundúnaliðið er til alls líklegt í ár og er eftir sigur gærkvöldsins með 40 stig á toppi deildarinnar, sjö stigum frá næsta liði.

„Hann valdi rétt augnablik til að mæta,“ sagði Mikel Arteta eftir leik gærkvöldsins.

„Nærvera hans er eitthvað sem þarf að vera mjög náið þessu fótboltaliði svo við þökkum honum fyrir að mæta, vegna þess að það hefur töluverða þýðingu fyrir alla hjá félaginu,“

„Vonandi er hann til í að eyða meiri tíma hjá okkur og í kringum okkur vegna þess að hann hefur gífurleg áhrif,“ sagði Arteta sem lék síðustu sex ár leikmannaferils síns, frá 2011 til 2016, undir stjórn Wengers hjá Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×