Erlent

„Án Bandaríkjanna værum við í vanda“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sanna Marin ásamt Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu.
Sanna Marin ásamt Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu. AP/Mark Baker

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur kallað eftir því að Evrópuríkin efli varnargetu sína í kjölfar átakanna í Úkraínu. Hún segir styrk Evrópu ónógan án Bandaríkjanna.

„Við þurfum að sjá til þess að við verðum sterkari,“ sagði Marin í Sydney í morgun. „Og ég skal bara vera mjög hreinskilin; Evrópa er ekki nógu sterk. Án Bandaríkjanna værum við í vanda.“

Marin sagði að bandamenn þyrftu að sjá Úkraínumönnum fyrir öllu því sem þeir þyrftu til að vinna stríðið og að Bandaríkjamenn hefðu átt lykilþátt í því að sjá Úkraínu fyrir nauðsynlegum vopnum, fjármunum og aðstoð til að stöðva sókn Rússa.

„Við þurfum að tryggja að við séum líka að byggja upp þessa getu hvað varðar varnir Evrópu, varnariðnaðinn í Evrópu, og sjá til þess að við gætum bjargað okkur í fjölbreytilegum aðstæðum,“ sagði forsætisráðherrann.

Hún sagði forgangsröðun Finna hafa breyst á því augnabliki þegar Rússar réðust yfir landamærin til Úkraínu. Fram að því hefðu Finnar einblínt á að stuðla að tvíhliða samskiptum við Rússa og eiga góða samvinnu við Atlantshafsbandalagið. 

Nú hafa Finnar hins vegar sótt um aðild. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×