Í hugleiðingum veðurfræðings segir að aðstæður geti verið varhugaverar fyrir vegfarendur, sérstaklega ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Það fer svo að rigna víða um landið seinnipartinn nema á Norðausturlandi og verður hlýnandi veður í dag. Núna í morgunsárið sé hiti nálægt frostmarki en í kvöld verði hiti tvö til níu stig.
„Allhvös suðaustanátt á morgun með rigningu í flestum landshlutum. Búast má við talsverðri úrkomu á suðaustanverðu landinu en úrkomulítið norðaustanlands. Það verður milt í veðri með hitatölum á bilinu 5 og 10 stig.
Á fimmtudag verður sunnanátt með skúrum, jafnvel slydduéljum á Vestfjörðum en lengst af þurrt norðaustantil. Hiti 1 til 7 stig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Suðaustan 10-18 m/s og rigning en talsverð úrkoma um tíma á sunnanverðu landinu. Úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 5 til 10 stig.
Á fimmtudag (fullveldisdagurinn): Sunnan 8-15 en heldur hvassara vestast. Skúrir sunnan- og vestanlands en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti 3 til 8 stig.
Á föstudag: Suðlæg átt 3-10 og skúrir en slydduél á Vestfjörðum og bjartviðri norðaustantil. Hiti 0 til 7 stig.
Á laugardag: Breytileg átt og víða bjartviðri. Hiti um eða yfir frostmarki að deginum.
Á sunnudag: Suðvestanátt, skýjað með köflum og hlýnar heldur. Fer að rigna vestast um kvöldið.
Á mánudag: Útlit fyrir norðlæga átt og lítilsháttar rigningu eða snjókomu í flestum landhlutum. Kólnandi veður, frost 0 til 6 stig um kvöldið.