Enski boltinn

Hasenhüttl sá fimmti sem fær sparkið í ensku úr­vals­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ralph Hasenhüttl er atvinnulaus.
Ralph Hasenhüttl er atvinnulaus. Matt Watson/Getty Images

Fjórðungur liða ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta hefur rekið þjálfara sinn það sem af er tímabili. Ralph Hasenhüttl var sá síðasti sem fékk sparkið en Southampton ákvað að láta Austurríkismanninn fara eftir 4-1 tap gegn Newcastle United um helgina.

Tæp fjögur ár eru síðan Hasenhüttl var ráðinn þjálfari Dýrlingana. Þrátt fyrir að tapa tvívegis 9-0 sem þjálfari liðsins þá virtist staða hans nokkuð örugg. Það er þangað til nú en liðið hafði byrjað tímabilið einkar illa og aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum.

Í yfirlýsingu frá félaginu sagði „að nú væri kominn tími til að breyta til.“ Einnig var Hasenhüttl þakkað fyrir vel unnin störf og að hjálpa til við að byggja upp einkenni liðsins.

Hasenhüttl er þar með fimmti stjórinn sem fær sparkið á leiktíðinni en alls hafa sex lið skipt um stjóra þar sem Chelsea sótti Graham Potter til Brighton & Hove Albion eftir að Thomas Tuchel var rekinn. Aðrir stjórar sem hafa verið reknir eru Scott Parker [Bournemouth], Steven Gerrard [Aston Villa] og Bruno Lage [Úlfarnir].

Sem stendur mun Rubén Sellés, einn af aðstoðarmönnum Hasenhüttl, stýra liðinu. Hans fyrsti leikur verður gegn C-deildarliði Sheffield Wednesday á miðvikudaginn kemur. Southampton mætir svo Liverpool á Anfield um næstu helgi áður en sex vikna hlé verður gert á deildinni vegna heimsmeistaramótsins í Katar. Sem stendur situr Southampton í 18. sæti með 12 stig eftir 14 leiki, einu stigi frá öruggu sæti.

Nathan Jones, þjálfari Luton Town í B-deildinni, er orðaður við starfið á St. Mary´s af enskum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×