Enski boltinn

Ten Hag hefur komið Casemiro á óvart: Hefur bara séð þetta hjá fáum þjálfurum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Casemiro fagnar í leik með Manchester United liðinu.
Casemiro fagnar í leik með Manchester United liðinu. Getty/Matthew Ashton

Erik ten Hag virðist vera að takast að snúa við skipinu á Old Trafford en það hefur allt annað verið að sjá til Manchester United liðsins á þessu tímabili. Hollenski stjórinn er greinilega mjög sérstakur stjóri ef marka má einn af hans nýjustu lærisveinum.

Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro hefur spilað undir frábærum knattspyrnustjórum eins og Zinedine Zidane, Rafa Benitez og Carlo Ancelotti. Hugarfar stjóra hans hjá Manchester United hefur komið honum talsvert á óvart.

Casemiro vann Meistaradeildina fimm sinnum með Real Madrid en United keypti hann í haust fyrir sem verður líklega sjötíu milljónir punda á endanum. Hann tók sinn tíma að vinna sér sæti í liðinu en hefur nú tekið öll völd á miðjunni.

„Eftir að hafa verið í fótbolta í langan tíma, þó að ég sé bara þrítugur, þá hefur komið mér mest á óvart þrjáhyggja hans fyrir að vinna leiki,“ sagði Casemiro.

„Hann hefur marga styrkleika en við vitum allir að þetta er ferli og að við erum að vaxa saman. Við viljum vinna og Ten Hag er með þráhyggju að kenna okkur og betrum bæta allt niður í minnstu smáatriði,“ sagði Casemiro.

„Þessi þráhyggja hans fyrir því að vinna er eitthvað sem ég hef aðeins séð hjá fáum stjórum,“ sagði Casemiro.

United liðið er sem stendur í fimmta sæti í ensku úrvalsdeildinni með 23 stig úr tólf leikjum en liðið er einu stigi á eftir Newcastle United. Liðið komst síðan áfram í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar en varð reyndar að sætta sig við annað sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×