Enski boltinn

Dag­ný setur spurninga­merki við hversu „hröð“ hún er í FIFA

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný er mjög hissa á þessu öllu saman.
Dagný er mjög hissa á þessu öllu saman. Alex Burstow/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta og fyrirliði West Ham United í ensku úrvalsdeildinni, er ekki parsátt með einkunnagjöf sína í tölvuleiknum FIFA 23. Dagný telur sig vera töluvert hraðari á velli en einkunnaspjald hennar segir til um.

Hin 31 árs gamla Dagný hefur byrjað tímabilið vel með liðinu sínu og skorað þrjú mörk í fimm leikjum til þessa á leiktíðinni. Þá var hún gerð að fyrirliða Hamranna fyrir tímabilið eins og áður hefur komið fram á Vísi.

FIFA er án efa einn vinsælasti tölvuleikur síðari ára en nýr leikur kemur út ár hvert. Í nýjustu útgáfu leiksins er loks hægt að spila sem kvennalið en það hefur ekki verið þekkt áður. Á Instagram-síðu sinni bendir Dagný þó á að hún sé ekki sátt með einkunnina sem hún fær fyrir „hraða“ á einkunnaspjaldi leiksins.

Leikmenn fá heildareinkunn sem byggir á þeirri einkunn sem þeir fá fyrir sex mismunandi þætti þar sem gefnar eru einkunnir frá 0 upp í 100. Flokkarnir eru: Sendingar, skot, knattrak, vörn, líkamlegan styrk og hraða.

Dagný, sem er er þekkt fyrir að vera ógnarsterk í loftinu sem og mjög líkamlega sterk, fær 82 í líkamlegan styrk en aðeins 64 í hraða.

„Skil ekki hvernig EA Sports [framleiðandi leiksins] gefur einkunnir leikmanna en ég tel að hámarkshraði upp á 31,6 kílómetra á klukkustund [30,3 á æfingu í dag] ætti skilið aðeins hærri einkunn,“ segir Dagný á Instagram-síðu sinni.

„Hef ekki spilað leikinn enn, eru stelpurnar sem ná ekki 30 kílómetrum á klukkustund með hraða einkunn upp á 50 og eitthvað,“ spyr hún að lokum en mynd af færslu hennar á Instagram má sjá hér að neðan.

Instagram færsla Dagnýjar.instagram/dagnybrynjarsFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.