Enski boltinn

Datt aldrei í hug að hún myndi spila fyrir West Ham eða verða fyrir­liði liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni gegn Manchester United á síðustu leiktíð. Næst þegar liðin mætast verður Dagný með fyrirliðabandið.
Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni gegn Manchester United á síðustu leiktíð. Næst þegar liðin mætast verður Dagný með fyrirliðabandið. Charlotte Tattersall/Getty Images

„Það er fyrst og fremst heiður að vera valin fyrirliði félagsins og að finna traustið sem því fylgir. Ég er mjög spennt fyrir mínu nýja hlutverki, ég tel mig vera leiðtoga og mun enn vera ég sjálf og já, að er gríðarlegur heiður,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, nýr fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins West Ham United.

West Ham tilkynnti á þriðjudag að íslenska landsliðskonan yrði fyrirliði liðsins og skömmu síðar var viðtal við hana birt á samfélagsmiðlum liðsins.

„Sem West Ham stuðningsmaður þá er ljóst að það er draumur að rætast. Sem lítil stelpa datt mér aldrei í hug að ég myndi spila fyrir félagið. Að vera orðinn fyrirliði núna, þetta er smá eins og ótrúlegur draumur.“

„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég yrði aðeins annar fyrirliði í sögu félagsins. Gilly (Flaherty) var augljóslega frábær fyrirliði og ég held það verði erfitt að fylla skarð hennar. Ég naut þeirra forréttinda að spila með og læra af henni undanfarið eitt og hálft ár, ég er mjög þakklát fyrir þann tíma. Ég mun einnig reyna að vera ég sjálf, vera sá leiðtogi sem ég hef verið og taka næsta skref.“

„Ég er mjög spennt fyrir því að taka aukna ábyrgð í liðinu, tel það henta mínum persónulega og einkennum. Ég held að það auki pressuna á mér sjálfri í að taka meiri ábyrgð, ég tel mig góða í því og mögulega nær persónuleiki minn að skína betur í gegn þökk sé því.“

„Nei mér datt aldrei í hug að ég myndi spila fyrir West Ham þegar ég var lítil, hvað þá að ég yrði fyrirliði. Mig dreymdi ekki einu sinni um að spila á Englandi því það var ekki möguleiki þegar ég var að alast upp. Ég held að í dag geti ég sagt við ungar stelpur að hafa trú á því sem þær eru að gera og vera með stóra drauma því maður veit aldrei hvað gerist,“ sagði fyrirliðinn að endingu.

Dagný hefur verið mikið í sviðsljósinu til þessa í sumar en stutt er síðan tilkynnt var að hún mundi leika í treyju númer 10 á komandi leiktíð. Nú er ljóst að hún mun einnig bera fyrirliðabandið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×