Erlent

Dráttar­véla­mót­mæli gegn ropskatti á bú­fénað

Kjartan Kjartansson skrifar
Bóndi ekur dráttarvél sinni í gegnum miðborg Auckland á mótmælum gegn loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Bóndi ekur dráttarvél sinni í gegnum miðborg Auckland á mótmælum gegn loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. AP/Dean Purcell/New Zealand Herald

Nýsjálenskir bændur óku fylktu liði á dráttarvélum sínum um götur borga og bæja víðsvegar um landið til þess að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja skatt á losun búfjár á gróðurhúsalofttegundum. Mótmælin eru þó sögð hafa verið minni í sniðum en búist var við.

Ríkisstjórn Jacindu Ardern forsætisráðherra lagði nýlega fram tillögu um að leggja sérstakan skatt á losun vegna búfjárræktar. Landbúnaður er helsta útflutningsgrein Nýja-Sjálands og um helmingur allrar losunar Nýja-Sjálands kemur frá bóndabýlum. Ropandi kýr losa sérstaklega mikið metan út í andrúmsloftið.

Hagsmunasamtök bænda skipulögðu mótmæli í fleiri en fimmtíu borgum og bæjum um landið allt í dag. AP-fréttastofan segir að tugir dráttarvéla hafi tekið þátt í stærstu viðburðunum. Bændurnir halda því meðal annars fram að skatturinn yki í raun losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum því landbúnaðarframleiðslan færðist þá til annarra landa þar sem losunin væri meiri.

Dave McCurdy, bóndi sem mótmælti í Wellington, gagnrýnir að skógrækt stéttarinnar sé ekki tekin með í reikningin en hún bindur kolefni og vegur upp á móti losun búfjárins. Skatturinn hrekti fjölda bænda úr stéttinni.

„Ég er hættur. Tímasóun,“ sagði hann við AP.

Nýsjálensk stjórnvöld stefna á að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Liður í því er að draga úr metanlosun búfjárræktunar um tíu prósent fyrir 2030 og allt að 47 prósent fyrir miðja öldina.


Tengdar fréttir

Íhuga að skattleggja beljurop

Ríkisstjórn Nýja-Sjálands lagði til að skattleggja losun gróðurhúsalofttegunda frá húsdýrahaldi í dag. Búfjárbændur hafa brugðist ókvæða við tillögunni sem þeir fullyrða að leiddi til atgervisflótta úr stéttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×