Íslenski boltinn

Þykist vita að hún hafi slitið krossband í fjórða sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir huga að Mist Edvardsdóttur eftir að hún meiddist í leik Vals og Slavia Prag í gær.
Elísa Viðarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir huga að Mist Edvardsdóttur eftir að hún meiddist í leik Vals og Slavia Prag í gær. vísir/vilhelm

Mist Edvardsdóttur grunar sterklega að hún hafi slitið krossband í hné í leik Vals og Slavia Prag í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í gær. Mist ætti að þekkja einkennin enda slitið krossband í þrígang.

„Ég fer í myndatöku í dag eða á morgun en ég þykist nú vita að þetta hafi verið krossbandið,“ sagði Mist í samtali við Vísi í morgun.

Hún meiddist eftir um tuttugu mínútna leik í gær og haltraði af velli. Í hennar stað kom Lillý Rut Hlynsdóttir í fyrsta leik sínum í rúmt ár. Mist segist hafa fundið kunnuglegan verk þegar hún meiddist.

„Já, eina sem var frábrugðið hinum þremur skiptunum var að þarna var þetta í kontakt. En hreyfingin sem hnéð fór í, ég fann smellinn og allt það sem kemur á eftir var alveg eins. Þetta var full kunnuglegt,“ sagði Mist.

Valur tapaði leiknum í gær, 0-1. Seinni leikurinn fer fram í Prag á miðvikudaginn í næstu viku. Valskonur gætu haldið utan sem nýkrýndir Íslandsmeistarar. Ef Valur vinnur Aftureldingu í næstsíðustu umferð Bestu deildar kvenna á laugardaginn verður liðið Íslandsmeistari annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Mist hefur tekið þátt í öllum sextán leikjum Vals í Bestu deildinni og skorað fjögur mörk. Hún lék einnig þrjá leiki og skoraði tvö mörk í Mjólkurbikarnum sem Valskonur unnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×