Enski boltinn

Segir að um aug­ljóst brot á Ødega­ard hafi verið að ræða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Norðmaðurinn Martin Ødegaard og Daninn Christian Eriksen áttust við á sunnudaginn.
Norðmaðurinn Martin Ødegaard og Daninn Christian Eriksen áttust við á sunnudaginn. Michael Regan/Getty Images

Fyrrverandi knattspyrnudómarinn Dermot Gallagher starfar í dag fyrir Sky Sports á Englandi og fer þar reglulega yfir umdeildustu dómaraákvarðanir liðinnar helgar. Það var af nægu að taka í ensku úrvalsdeildinni um helgina þar sem myndbandsdómgæslan var enn og aftur þrætueplið.

Enska dómarasambandið hefur nú þegar staðfest að jöfnunarmark West Ham United gegn Chelsea hafi átt að standa en markið var dæmt af eftir að dómari leiksins hafði skoðað það nánar í VAR-sjánni. Sömu sögu er að segja af sigurmarki Newcastle United gegn Crystal Palace.

Var það ákvörðun sem féll á sunnudeginum er topplið Arsenal heimsótti Manchester United á Old Trafford sem var helsta umræðuefnið á kaffistofum landsins. Gestirnir töldu sig hafa komist yfir eftir að Gabriel Martinelli kom boltanum í netið í fyrri hálfleik.

Markið var hins vegar dæmt af þar sem Martin Ødegaard keyrði inn í bakið á Christian Eriksen og vann þannig boltann af Dananum í aðdraganda marksins. Þetta staðfesti Gallagher og honum kom í raun á óvart að dómari leiksins hafi ekki flautað strax á brotið, svo augljóst hafi það verið.

„Fyrir mér er þetta brot, Ødegaard ýtir Eriksen þarna og rekur líka hnéð í hann,“ sagði Gallagher. Það hefur verið talað um að dómarar á Englandi eigi að leyfa meira í ár þar sem það var dæmt um og of á síðustu leiktíð. Það breytir því ekki að um brot sé að ræða segir dómarinn fyrrverandi.

„Horfðu, Ødegaard er með báðar hendur á bakinu á Eriksen þarna. Mér fannst þetta brot strax og ég sá atvikið. Þegar VAR skoðaði það nánar var ég viss um að þeir myndu taka markið af og dæma aukaspyrnu. Þegar Paul Tierny, dómari leiksins, fer í skjáinn og sér að það er ýtt í bakið á Eriksen og að Ødegaard rekur hnéð í hann þá taldi ég öruggt að hann myndi dæma brot.“

Manchester United vann leikinn eins og frægt er orðið 3-1. Arsenal er því ekki lengur ósigrað en heldur þó í toppsætið með 15 stig að loknum sex leikjum. Man United er á sama tíma í 5. sæti með 12 stig eftir að hafa unnið fjóra leiki í röð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×