Liverpool lék sér að Bournemouth

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Firmino var allt í öllu í risasigri Liverpool í dag.
Roberto Firmino var allt í öllu í risasigri Liverpool í dag. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Eftir erfiða byrjun í ensku úrvalsdeildinni er Liverpool komið í gang eftir sannkallaðan stórsigur gegn nýliðum Bournemouth í dag. Lokatölur 9-0 þar sem Roberto Firmino var allt í öllu í sóknarleik heimamanna.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og Luis Diaz kom liðinu í forystu strax á þriðju mínútu eftir stoðsendingu frá Roberto Firmino. Staðan var síðan orðin 2-0 þremur mínútum síðar þegar Harvey Elliott skoraði gott mark eftir stoðsendingu frá áðurnefndum Firmino.

Firmono var langt frá því að vera hættur því hann lagði líka upp þriðja mark Liverpool á 28. mínútu leiksins, í þetta sinn fyrir bakvörðinn Trent Alexander-Arnold. Þremur mínútum síðar ákvað Firmino svo að hann væri orðinn þreyttur á því að búa til mörk fyrir liðsfélaga sína og skoraði fjórða mark liðsins sjálfur.

Ótrúlegt en satt þá kom Roberto Firmino ekki nálægt fimmta marki Liverpool, en í þetta skipti skoraði Virgil van Dijk eftir fyrirgjöf frá Andrew Robertson og staðan því 5-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn komust svo í 6-0 í upphafi síðari hálfleiks þegar Chris Mepham varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Roberto Firmino var svo á ferðinni enn eina ferðina þegar hann skoraði sjöunda mark liðsins á 62. mínútu, áður en hann var svo tekinn af velli stuttu síðar.

Varamaðurinn Fabio Carvalho skoraði svo áttunda mark liðsins þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka áður en Luis Diaz batt endahnútinn á leikinn og tryggði liðinu vægast sagt öruggan sigur, 9-0.

Þetta var fyrsti sigur Liverpool á tímabilinu og liðið situr nú í áttunda sæti deildarinnar með fimm stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum meira en Bournemouth sem situr í 17. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira