Enski boltinn

Ten Hag tók refsinguna með leikmönnum United

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ten Hag var ekki yfir refsingu leikmanna hafinn og axlaði sinn hluta ábyrgðarinnar.
Ten Hag var ekki yfir refsingu leikmanna hafinn og axlaði sinn hluta ábyrgðarinnar. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, refsaði sjálfum sér ásamt leikmönnum liðsins eftir slæmt tap fyrir Brentford þarsíðustu helgi. Eitthvað virðist leikmannahópur United hafa hrist sig saman þar sem sigur á Liverpool fylgdi á mánudagskvöld.

Það vakti töluverða athygli að ten Hag refsaði leikmönnum United eftir agalega frammistöðu liðsins gegn Brentford þarsíðasta laugardag. United var niðurlægt, 4-0, og sat eftir á botni ensku úrvalsdeildarinnar eftir tvo leiki, gegn Brighton og Brentford.

Ten Hag brá á það ráð að aflýsa frídegi sem leikmenn liðsins áttu að eiga daginn eftir. Hann skipaði leikmönnum United að hlaupa 13,9 kílómetra í 33 gráðu hita, sem vísaði til þess að leikmenn United hlupu 13,9 kílómetrum minna en kollegar sínir hjá Brentford í tapinu.

Breskir fjölmiðlar vekja athygli á því í dag að ten Hag var ekki yfir refsinguna hafinn sjálfur. Hann hafi axlað ábyrgð ásamt leikmönnunum og hlaupið vegalengdina með þeim.

Samkvæmt Mirror er ten Hag sagður hafa verið líkamlega ónýtur eftir hlaupið, en uppátæki hans hafi hreyft við leikmönnum liðsins - kvartanir þeirra undan refsingunni hafi skyndilega hljóðnað þegar í ljós kom að þjálfarinn myndi hlaupa með þeim.

Það var líkt og annað United-lið hefði mætt til leiks þegar Liverpool var í heimsókn á Old Trafford á mánudagskvöldið. Heimamenn voru afar kröftugir og lexían um skort á vinnslu virðist hafa skilað sér þar sem leikmenn United hlupu samanlagt 109,4 kílómetra í leiknum, sem var tæplega 14 kílómetrum meira en í tapinu fyrir Brentford níu dögum fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×