Enski boltinn

„Hann býr heima hjá mér meðan kærastan er í burtu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Silva og Cancelo eru miklir mátar.
Silva og Cancelo eru miklir mátar. Clive Brunskill/Getty Images

Portúgalinn João Cancelo, leikmaður Manchester City, segir þá Bernardo Silva vera tengda sterkum böndum. Silva er landi hans og liðsfélagi hjá Englandsmeisturunum.

Silva hefur verið sterklega orðaður við brottför frá City í sumar, þá sérstaklega við Barcelona á Spáni. Hann er þó enn hjá Englandsmeisturunum en landarnir hafa átt stóran þátt í velgengni liðsins undanfarin ár.

Ljóst er að Cancelo vill ekki missa góðvin sinn frá félaginu.

„Bernardo býr núna heima hjá mér, á meðan kærastan mín er ekki hér, höldum við tveir okkur saman,“ segir Cancelo við Eleven Sports.

„Við Bernardo eigum langt samband að baki. Við erum hluti af sömu kynslóð úr akademíu Benfica,“

„Vinátta okkar er mjög falleg því að við erum algjörlega andstæður hvors annars og mér þykir það nokkuð fyndið. Hann er þessi týpíska manneskja frá Lissabon og ég er drengur sem í raun ólst upp á götunni,“ segir Cancelo.

Cancelo náði að spila einn deildarleik fyrir Benfica árið 2014 en fór til Valencia á Spáni sama ár. Hann lék svo með Internazionale og Juventus á Ítalíu áður en hann gekk í raðir Manchester City árið 2019.

Silva spilaði sömuleiðis aðeins einn deildarleik fyrir Benfica en hann fór til Mónakó í Frakklandi árið 2014. Þaðan keypti Manchester City hann sumarið 2017.

Manchester City hefur farið vel af stað í titilvörn sinni og unnið fyrstu tvo leiki sína í ensku úrvalsdeildinni. Liðið sækir Newcastle United heim á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×