Enski boltinn

Ron­aldo segir sann­leikann koma í ljós eftir tvær vikur: Fær að heyra það frá N­evil­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo heldur áfram að koma sér í fréttirnar.
Cristiano Ronaldo heldur áfram að koma sér í fréttirnar. John Walton/Getty Images

Gary Neville, sparkspekingur á Sky Sports og fyrrum samherji Cristiano Ronaldo hjá Manchester United er allt annað en sáttur með ummæli Ronaldo á Instagram. Þar sagði Portúgalinn að eftir tvær vikur kæmi í ljós að fjölmiðlar hefðu verið að ljúga.

Framtíð Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur. Fyrst vildi hann fara frá Man United þar sem félagið var ekki að standa sig á leikmannamarkaðnum, og hann vildi spila í Meistaradeild Evrópu í vetur.

Þá vildi Erik ten Hag, þjálfari liðsins, halda í stærsta nafnið í leikmannahópnum en eftir skelfilega byrjun á leiktíðinni og ítrekuð frekjuköst Ronaldo hefur Ten Hag að því virðist hafa skipt um skoðun.

Á Instagram í gærkvöldi skrifaði Ronaldo svo tvö ummæli við mynd af sér sem hefur báðum verið eytt er þessi frétt er skrifuð.

„Þau munu vita sannleikann þegar þau ræða við mig eftir tvær vikur. Fjölmiðlar ljúga. Ég er með glósubók og undanfarna mánuði hafa yfir 100 fréttir verið skrifaðar, aðeins fimm eru réttar,“ segir í síðari ummælum Ronaldo. 

Þau hafa verið þýdd yfir á ensku en voru upprunalega á portúgölsku. Skjáskot af þeim má sjá hér að neðan.

Skjáskot af ummælum Ronaldo.Instagram

Neville, sem lék með Ronaldo um árabil, er allt annað en sáttur með þessi ummæli Ronaldo. Hann tjáði sig um málið á Twitter-síðu sinni.

„Af hverju þarf besti leikmaður í heimi (að mínu mati) að bíða í tvær vikur með að segja stuðningsfólki Manchester United sannleikann? Stígðu upp og segðu hann núna. Félagið er í krísu og það þarfnast leiðtoga. Hann er sá eini sem getur tæklað þessa umræðu.“

Man United er á botni ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur og Ronaldo er ekki enn kominn á blað. Hann er talinn vera á förum frá félaginu og miðað við ummæli hans á Instagram þá ætlar hann að tjá sig um leið og félagaskiptaglugginn lokar þann 1. september.


Tengdar fréttir

Segja Ron­aldo vera til sölu | Auba­mey­ang gæti leyst hann af hólmi

Breska ríkisútvarpið heldur því fram að Cristiano Ronaldo gæti yfirgefið Manchester United áður en félagaskiptaglugginn lokar þann 1. september næstkomandi. Útvarpsstöðin TalkSport tekur í sama streng og segir leikmanninn vera til sölu. Þá greinir Sky Sports frá því að Man United gæti sótt Pierre-Emerick Aubameyang til að leysa hann af hólmi.

Reiður Ten Hag lét leik­menn Man Utd hlaupa í steikjandi hita

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, var allt annað en sáttur eftir 4-0 afhroð liðsins gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Leikmenn liðsins áttu að fá frí á sunnudag en Ten Hag boðaði þá á aukaæfingu eftir hörmungar frammistöðu deginum áður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.