Enski boltinn

Man Utd neitar sögu­sögnum um Ron­aldo | Sky Sports eyðir færslu sinni

Atli Arason skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, niðurlútur í leiknum gegn Brentford í gær.
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, niðurlútur í leiknum gegn Brentford í gær. Getty Images

Manchester United hefur neitað því að félagið ætli að rifta samningi Ronaldo vegna mögulegra hegðunarvandamála hjá framherjanum.

Sky Sports greindi fyrst frá því í dag í sjónvarpsfréttatíma sínum að samningi Ronaldo gæti verið rift vegna framkomu hans. Sky Sports birti svo tíst á Twitter með myndbroti úr fréttatímanum og í kjölfarið skrifuðu flestir stærstu miðlar heims um hugsanlega riftingu á samningi Ronaldo hjá Manchester United. Vísir greindi einnig frá málinu fyrr í dag. Nú hefur United hins vegar neitað sögusögnunum og Sky Sports hefur eytt upprunalegri færslu sinni.

Breski blaðamaðurinn Samuel Luckhurst sem sérhæfir sig í málefnum Manchester United hjá Manchester Evening News greindi frá því fyrir skömmu að enginn hjá Manchester United staðfesti þessar fullyrðingar Sky Sports um Ronaldo, að þessar sögur væru í raun uppspuni og falsfréttir.

Ronaldo hafði sjálfur beðið um að fá að yfirgefa United fyrr í sumar en í 4-0 tapinu gegn Brentford í gær virtist hann augljóslega orðinn eitthvað pirraður á ástandinu. Ronaldo fór ekki með öðrum leikmönnum liðsins að klappa fyrir þeim stuðningsmönnum United sem höfðu ferðast til London til að fylgjast með leiknum, eins og hefð er fyrir, heldur strunsaði Ronaldo beint inn í klefa.

Næsti leikur Manchester United er gegn Liverpool mánudaginn 22. ágúst. Það verður fróðlegt að sjá hvaða hlutverk Ronaldo fær í þeim erkifjendaslag.


Tengdar fréttir

Man Utd hótar að rifta samningi Ronaldo

Cristiano Ronaldo gæti verið á förum frá Manchester United á næstu dögum en samningi hans gæti verið rift vegna hegðunarvandamála.

Martröð Erik ten Hag heldur áfram

Manchester United beið afhroð þegar liðið sótti Brentford heim á Gtech Community-leikvangnum í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta karla í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.