Veður

Búist við vonsku­veðri í dag

Árni Sæberg skrifar
Gul viðvörun verður í gildi víða í dag.
Gul viðvörun verður í gildi víða í dag. Vísir/Vilhelm

Gul veðurviðvörun tekur gildi nú í morgunsárið fyrir Suðurland, Faxaflóa og miðhálendið. Búist er við roki og rigningu fram eftir degi.

Útlitið er verst á miðhálendinu þar sem aðstæður í dag verða varasamar eða hættulegar ferðamönnum og útivistarfólki. Suðaustan stormi er spáð með átján til 25 metrum á sekúndu og rigningu. Staðbundið geta hviður náð 35 metrum á sekúndu. Hvassast verður í hviðum norðvestan jökla, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Í byggð verður veður verst á Suðurlandi þar sem gul viðvörun er í gildi frá sjö til fjórtán í dag. Þar er spáð suðaustan hvassviðri eða stormi, fimmtán til 23 metrar á sekúndu, og talsverðri rigningu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 metrum á sekúndu.

Veður verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og ekkert ferðaveður verður á meðan það gengur yfir.

Á Faxaflóa verður veður örlítið skárra en vont samt sem áður. Þar verður suðaustan hvassviðri, þrettán til tuttugu metrar á sekúndu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 25 metrum á sekúndu, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall líkt og svo oft áður.

Eins og á Suðurlandi verður veður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og ekkert ferðaveður á meðan það gengur yfir.

Allt að fjórtán stiga hiti fyrir norðan

Annars staðar á landinu verður öllu skárra veður. Hægur vindur og léttskýjað verður norðan og austanlands og hiti nær víða tveggja stafa tölu, hlýjast á Húsavík þar sem hiti gæti náð fjórtán gráðum.

Þar versnar veður þegar líður á daginn og spáð er sunnan og suðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu með skúrum og talsverðri rigningu á Austfjörðum fram á kvöld.

Á Vestfjörðum verður nokkuð hvöss austanátt og rigning þegar líður á daginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×