Enski boltinn

Man United hætt við að fá Arnauto­vić eftir á­hyggjur stuðnings­fólks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Cambiaso fær að heyra það frá Marko Arnautovic í vináttuleik á dögunum.
Andrea Cambiaso fær að heyra það frá Marko Arnautovic í vináttuleik á dögunum. Marcel ter Bals/Getty Images

Í gær fóru þær fréttir á kreik að Manchester United vildi fá Marko Arnauto­vić í sínar raðir. Það virðist sem sá áhugi hafi kólnað hratt þökk sé áhyggjum stuðningsfólks Man United sem og verðmiða leikmannsins.

Hinn 33 ára gamli Arnauto­vić leikur í dag með Bologna á Ítalíu. Félagið neitaði tilboði Man United upp á 8 milljónir evra um helgina samkvæmt frétt The Athletic. Enska félagið fékk þau skilaboð að leikmaðurinn væri ekki til sölu en svo virðist sem skoðanir stuðningsfólks Man Utd hafi haft meiri áhrif heldur en hár verðmiði.

Leikmaðurinn hefur verið á milli tannanna á fólki um árabil og var til að mynda ásakaður um kynþáttaníð er hann lék með FC Twente í Hollandi árið 2009. Arnauto­vić lék með West Ham United og Stoke City á Englandi á sínum tíma, er hann var á mála hjá Hömrunum var hann talinn sýna kvennaliði félagsins mikla óvirðingu, meðal annars með því að trufla æfingar þess.

Ofan á það var hann fundinn sekur um fordóma í garð Albaníu er hann lék með Austurríki gegn Norður-Makedóníu á EM sem fram fór sumarið 2021. Var hann í kjölfarið dæmdur í eins leiks bann.

Man United heldur úti strangri stefnu er kemur að kynþáttahatri-, níði og fordómum almennt. Að festa kaup á Arnauto­vićhefðu verið gegn þeirri stefnu og sendi fjöldi stuðningsfólks Man Utd framkvæmdastjóra félagsins, Richard Arnold, tölvupóst þess efnis.

Man Utd er þó enn á höttunum á eftir franska miðjumanninum Adrien Rabiot. Félagið hefur verið á eftir honum í allt sumar og er ekki talið að koma hans hafi áhrif á áhuga félagsins á Frenkie de Jong, miðjumanni Barcelona.

Hinn 27 ára gamli Rabiot, sem á aðeins ár eftir af samningi sínum við Juventus, myndi kosta Man United 15 til 20 milljónir punda og þá er vitað að hann vill fá sömu laun í Manchester og á Ítalíu eða um 200 þúsund pund á viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×