Enski boltinn

Neyðar­lausnin hjá Man. United er að ná í gamla Stoke og West Ham fram­herjann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marko Arnautovic í leik með austurríska landsliðinu.
Marko Arnautovic í leik með austurríska landsliðinu. Getty/Roland Krivec

Manchester United byrjaði nýtt tímabil á tapi á móti Brighton á Old Trafford um helgina og liðið hefur fengið á sig mikla gagnrýni í kjölfarið. Eftir vandræðin í fyrra sjá gagnrýnendur bara sama gamla United þótt að nýr stjóri sé tekinn við.

Eftir tapið fóru að berast fréttir af því að United ætli að reyna að ná í þá Benjamin Sesko og Marko Arnautovic á næstu dögum.

United hafði samband við ítalska félagið Bologna um möguleg kaup á Arnautovic, sem lék á sínum tíma með Stoke og West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Arnautovic elti á sínum tíma peningana til Kína en þessi 33 ára gamli og 192 sentimetra hái framherji skoraði 14 mörk í 33 deildarleikjum með Bologna á síðustu leiktíð.

Það var hans fyrsta tímabil í Evrópu eftir þrjú ár í Kína en hann skoraði 10 mörk í 28 leikjum á síðasta tímabili sínu í ensku úrvalsdeildinni sem var með West Ham veturinn 2018-19.

ESPN segir frá því að Erik ten Hag hafi sett pressu á United að semja við reyndan framherja sem myndi sætta sig við að koma inn af bekknum.

Bologna á að hafa hafnað níu milljón punda tilboði frá United en viðræður eru enn í gangi.

United er ennig í viðræðum við FC Salzburg um kaup á hinum nítján ára gamla framherja Benjamin Sesko. Chelsea hefur líka áhuga á Sesko en Salzburg vill helst halda honum fram á sumar.

Anthony Martial er meiddur og Cristiano Ronaldo þarf að koma sér í form eftir að hafa sleppt undirbúningstímabilinu. Ronaldo byrjaði leikinn á móti Brighton á bekknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.